Félag heyrnarlausra

Nánari upplýsingar
Nafn Félag heyrnarlausra
Númer E-132
Lýsing

Þann 31. ágúst 1952 var fyrst gerð tilraun til þess að stofna félag meðal heyrnarlausra, Félag heyrnar- og málleysingja, hér á landi. Félagið var þó ekki langlíft og lifði aðeins í sex mánuði en í skjalasafni Félags heyrnarlausra má finna fjárreiðubók þessa félags þar sem taldir eru upp 23 félagar.

Félag heyrnarlausra var síðan stofnað 11. febrúar 1960 og voru stofnfélagar 33 talsins. Samkvæmt lögum félagsins skyldi tilgangur þess vera „að stuðla að auknum félagsskap þeirra, sem mállitlir eða mállausir eru vegna heyrnarleysis og vinna að hagsmunamálum þeirra“.

Til þess að sinna þessu hlutverki sínu skyldi félagið halda „samkomur, spilakvöld, skemmtanir eða kvikmyndasýningar fyrir meðlimi sína ekki sjaldnar en tvisvar í mánuði og beita sér fyrir öðru því, sem orðið getur meðlimum þess til stundastyttingar í frítímum þeirra“. Þannig var tilgangur félagsins í upphafi að vera félagsskapur heyrnarlausra sem kæmi saman öðru hvoru til þess að skemmta sér og öðrum.

Þannig voru nokkur félög stofnuð innan Félags heyrnarlausra til eflingar áhugamála félagsmanna. Stofnað var skákfélag árið 1972, skíðaklúbbur 1978 auk þess sem Íþróttafélag heyrnarlausra var stofnað árið 1979 en það félag var síðan rekið aðskilið frá Félagi heyrnarlausra. Borgarskjalasafn varðveitir skjalasafn Íþróttafélags heyrnarlausra. Enn fremur voru stofnaðir „Klúbbur ‘37“ árið 1988 sem ætlaður var félagsmönnum 37 ára og eldri og Myndbandsklúbbur heyrnarlausra árið 1989.

Hefur félagið einnig gefið út tímarit frá árinu 1976 ásamt ýmsu útgáfuefni um málefni heyrnarlausra, s.s. táknmálsorðabók og ýmsa bæklinga um réttindamál heyrnarlausra.

Fyrsti áratugurinn í sögu félagsins fór hægt af stað en þó var strax árið 1960 farið að vinna að þátttöku félagsins í norrænu samstarfi með systurfélögum á Norðurlöndum. Árið 1974 gerðist Félag heyrnarlausra svo aðili að Norðurlandaráði heyrnarlausra en tilgangur þess félags er m.a. að auka samstarf milli heyrnarlausra á Norðurlöndum. Í framhaldi af inngöngunni varð félagið virkt í erlendu samstarfi en árið 1974 hélt Félag heyrnarlausra fund Norðurlandaráðs heyrnarlausra hér á Íslandi og aftur árið 1976 og 1981.

Norrænt æskulýðsmót var síðan haldið á Íslandi 1976 og 1986, mót aldraðra heyrnarlausra var haldið í Reykjavík árið 1977 og norræn menningarhátíð var haldin á Íslandi árið 1986. Einnig er Félag heyrnarlausra aðili í Öryrkjabandalagi Íslands og Alheimssamtökum heyrnarlausra.

Réttindamál heyrnarlausra hafa á síðustu áratugum orðið æ fyrirferðameiri í starfsemi félagsins. Þó náðist fram mikilvægt réttindamál þegar árið 1964 þegar heyrnarlausir fengu ökuréttindi sem heyrnarlausir í nágrannalöndunum höfðu haft árum saman.

Á níunda áratugnum varð vakning innan félagsins í réttindamálum heyrnarlausra, ekki síst varðandi móðurmál þeirra, táknmálið. Fór félagið m.a. að beita sér fyrir hagsmunum heyrnarlausra þar sem þeir höfðu orðið undir í þjóðfélaginu. Barðist félagið fyrir tryggingarbótum til heyrnarlausra en í könnun meðal félagsmanna árið 1978 kom í ljós að ekki sátu allir við sama borð í þeim efnum og fáir hlutu styrk. Skilaði sú barátta af sér að þeir sem eru heyrnarskertir fá bætur frá Tryggingarstofnun að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Fréttaágrip á táknmáli í sjónvarpi var einnig mikilvægt framfaraskref í réttindamálum heyrnarlausra en félagið barðist fyrir því frá upphafi.

Það var svo 1. nóvember 1980 sem fyrsta fréttaágripið á táknmáli var flutt í sjónvarpi á Íslandi af Vilhjálmi G. Vilhjálmssyni. Í dag hefur hlutverk félagsins aukist frá því að vera félagsskapur heyrnarlausra yfir í að hafa það að markmiði að bæta stöðu heyrnarlausra í samfélaginu og stuðla að réttindum þeirra til jafns við aðra. Enn fremur miðar félagið að því að koma upplýsingum til almennings um heyrnarleysi og táknmálið, tungumál heyrnarlausra.

Félag heyrnarlausra hefur í gegnum árin hlotið ómetanlegan stuðning frá Foreldra- og styrktarfélagi heyrnarlausra sem stofnað var 16. september 1966. Hefur það félag m.a. gefið út ýmis rit um táknmál og heyrnarleysi ásamt því að hafa styrkt Félag heyrnarlausra í félagsstarfsemi sinni.

Stofnun framkvæmdanefndar Félags heyrnarlausra árið 1975, sem varð grundvöllur samstarfs milli félagsins og Foreldra- og styrktarfélags heyrnardaufra, markaði ákveðin tímamót í sögu félagsins. Verkefni nefndarinnar var m.a. að vinna að öflun fjár sem m.a. skyldi verja til aukinna erlendra samskipta, m.a. við Norðurlönd, námskeiðshalds, útgáfu táknmálsorðabókar ásamt fleiri verkefnum.

Fljótlega var ljóst að ekki var til nægilegt fé fyrir öllum þeim verkefnum sem biðu framkvæmda og var því stofnað til happdrættis sem síðan hefur verið ein aðaltekjulindin í rekstri félagsins.

Félag heyrnarlausra hafði fyrst aðstöðu í Heyrnleysingjaskólanum í Stakkholti en þótti það húsnæði henta illa fyrir starfsemina og fljótlega var farið að safna fé fyrir eigin húsnæði. Það var svo 1977 að félagið festi kaup á miðhæð Skólavörðustígs 21. Var félagið þar til húsa uns það flutti árið 1982 að Klapparstíg 28. Í dag rekur félagið skrifstofur sínar að Laugavegi 103.

Formenn Félags heyrnarlausra hafa verið Guðmundur Björnsson 1960-1964,

Ólafur Guðmundsson 1965, Daníel Jensen 1966-1971, Böðvar Árnason 1972, Marteinn Friðjónsson 1973, Hervör Guðjónsdóttir 1974-1982, Vilhjálmur G. Vilhjálmsson 1983-1987, Haukur Vilhjálmsson 1988-1989 og Berglind Stefánsdóttir.

 

Um skjalasafn Félags heyrnarlausra

Stærstur hluti skjala Félags heyrnarlausra voru sótt á skrifstofu félagsins, Laugaveg 103, 12. september 2002 af starfsmanni Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Síðan hafa bæst í safnið afhendingar frá 10. júlí 2003 sem afhent var af starfsmanni Félags heyrnarlausra, Steinunni Þorvaldsdóttur, og voru það myndbönd úr starfi félagsins, skráð í öskjur DB1-DB3. Þann 24. júní 2005 afhenti þáverandi formaður Félags heyrnarlausra, Kristinn Jón Bjarnason, ýmis skjöl sem skráð voru í öskjur GB34-GB44, CB14-CB20, CD10-CD15, CA4 og CC4.

Síðasta afhending var 26. janúar 2006 sem voru litskyggnur úr starfi Félags heyrnarlausra sem skráð voru í öskjur DC1-DC20. Fyrir var til ein askja með skjölum frá Félagi heyrnarlausra sem var afhent safninu 22. október 1998 og er sú askja merkt E9 í þessari skjalaskrá.

Skjölin voru sótt í geymslu félagsins þar sem þeim hafði verið pakkað ofan í pappakassa ásamt því að vera enn í skrifstofumöppum. Við komu á Borgarskjalasafn Reykjavíkur var skjölunum umpakkað í sérstakar skjalaöskjur og fyrirferðamiklar skrifstofumöppur fjarlægðar. Að hluta til hafði safninu verið pakkað skipulega ofan í kassa og því var safnið í ágætu ásigkomulagi og ágætlega skipulagt og við skráningu og frágang á Borgarskjalasafni Reykjavíkur hefur innri röðun skjalasafnsins fengið að halda sér. Við skráningu safnsins kom í ljós skjalaskrá sem gerð hafði verið þegar eldri skjölum félagsins var pakkað niður árið 1991. Hún var hins vegar ónákvæm og lýsti aðeins efnisinnihaldi kassanna í einni setningu. Einnig hafði skjölunum verið pakkað niður eftir stafrófsröð þannig að gestabækur og gjörðabækur lentu saman í öskjum. Því þurfti að umpakka skjölunum og raða skjalaflokkum saman.

Skjöl Félags heyrnarlausra eru almennt frá upphafsári félagsins 1960 og til 2002, með einni undantekningu en varðveist hefur dagbók bókhalds frá fyrirrennara félagsins Félagi heyrnar- og málleysingja 1952-1953. Þó virðist vera stórt gat milli áranna 1960 og 1970 en þar vantar mikið af skjölum í safnið. Kann skýringin að vera sú að skjöl frá þessum tíma voru geymd í kjallara Klapparstígs 28 en þar flæddi og nokkuð af skjölum skemmdist og var þeim hent. Einnig kann að vera að nokkuð hafi glatast við flutning á milli staða í gegnum árin.

Skjalaskrá
Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn E-132 Félag heyrnarlausra (1952)
Flokkun
Flokkur Félagasamtök
Útgáfuár 2013
Útgefandi Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Leitarorð heyrnarleysi, málleysi, fatlað fólk, samtök fatlaðs fólks