Katrín J. Smári

Nánari upplýsingar
Nafn Katrín J. Smári
Númer E-595
Lýsing

Katrín Jakobsdóttir Smári fæddist í Kaupmannahöfn 22. júlí 1911 og lést 13. janúar 2010. Hún var dóttir Jakobs J. Smára skálds og menntaskólakennara (1889-1972) og Helgu Þorkelsdóttur Smára kjólameistara (1884-1974). Bróðir Katrínar var Bergþór J. Smári læknir (1920-2012). Katrín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1930 og stundaði nám í forspjallsvísindum og frönsku við Háskóla Íslands 1930-1931. Næstu árin vann hún ýmis störf, m.a. sem þingskrifari. Árið 1959 var Katrín kjörin varaþingmaður Alþýðuflokksins og sat á Alþingi 1960, 1964 og 1965. Hún var kennari við Hagaskóla 1960-1961 og 1962-1964. Eftir það starfaði hún sem læknaritari til 1973. Katrín var mjög félagslega sinnuð, sat í ýmsum nefndum, m.a. í stjórn Kvenfélags Alþýðuflokksins í Reykjavík og í stjórnum fleiri kvenfélaga.

Katrín, giftist 8. júní 1940, Yngva Pálssyni fæddur 22. maí 1909, dáinn 2. júlí 1980, fulltrúa hjá Eimskip. Foreldrar hans voru Páll Nikulásson (1864-1932) og Björg Pétursdóttir (1875-1962).

Börn Katrínar og Yngva eru: Helga Björg fædd 6. júlí 1943. Maki 1) Þorfinnur Karlsson verslunarmaður (1941-1990), þau skildu. Börn þeirra eru: a) Yngvi Páll verkfræðingur (1964-), maki 1) Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur (1967-), þau skildu. Þeirra börn eru Þórdís Björg og Dagur Ingi. Maki 2) Kristín Anna Jónsdóttir þroskaþjálfi (1969-), þau slitu sambúð. Þeirra sonur er Þorfinnur Már. b) Sigríður Margrét líffræðingur (1967-), maki Elías Bjarni Guðmundsson viðskiptafræðingur (1967-). Þeirra börn eru Helga Guðný, Vilhjálmur Grétar og Ingólfur Bjarni. Maki 2) Ólafur Birgir Árnason hæstaréttarlögmaður (1940- 2001). Þeirra dóttir er Katrín Smári lögfræðingur (1979-). Sambýlismaður Karl S. Jónsson viðskiptafræðingur (1978-). 2) Jakob prófessor (1945-), maki Guðrún Kvaran prófessor (1943-). Börn þeirra eru: a) Böðvar Yngvi MA í heimspeki og þýðandi (1977-), sambýliskona Marta Guðrún Jóhannesdóttir kennari (1978-), þau slitu sambúð. Sonur þeirra er: Einar Hugi. b) Steinunn Helga MA í þróunarfræðum (1981-).

Frásögn Katrínar af lífi sínu

Árið 1992 tók ég viðtal við Katrínu um æsku og fram á fullorðinsár en þá stundaði ég nám í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hér á eftir kemur frásögn Katrínar svo langt sem hún nær.

Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur.

Mamma - Helga Þorkelsdóttir Smári

Móðir mín hét Helga Þorkelsdóttir og var fædd í Álfsnesi á Kjalarnesi 20. nóvember 1884. Hún ólst þar upp en eftir að faðir hennar, Þorkell Ingjaldsson dó af áverkum sem hann fékk er hann slasaðist á sjó seldi amma mín, Björg Sigurðardóttir, jörðina, greiddi börnum sínum föðurarf og flutti til Reykjavíkur. Mamma ákvað að nota arfinn til að forframast í Danmörku. Hún fór eitt ár í verslunarskóla en síðan lá leið hennar í húsmæðraskóla sem hét Kvinnernes Køkkenkultur og þar lærði hún matreiðslu. Þá var arfurinn uppurinn og hún fór að vinna fyrir sér. Hún fékk vinnu við sauma í „Magasin Du Nord" og var sett í hóp þeirra sem kunnu að sauma. Fyrsta stykkið var erfiður kjóll sem hún réði ekkert við. Þá fékk hún annan kjól sem samstarfskona hjálpaði henni með svo hún fékk að vera áfram. Smám saman varð hún verulega flink saumakona og á endanum sprengdi hún launaskalann en saumakonurnar fengu visst kaup fyrir hverja flík, þó aldrei hærra en sem nam ákveðinni upphæð. Þær sem sprengdu skalann áttu að sauma í sjálfboðavinnu og við það vildi hún ekki una. Hún sagði upp og fór að vinna hjá annarri saumastofu, Illum, og var þar í einhver tíma. Nokkru síðar var gert boð fyrir hana á gamla staðnum og hún beðin um að koma aftur upp á þau kjör að hún fengi greitt fyrir það sem hún saumaði og það gerði hún.

Mamma kom ákaflega vel fyrir, var ætíð fínt klædd enda saumaði hún öll sín föt sjálf. Hún saumaði líka karlmannsföt, t.d. kjólföt á pabba, og allan annan fatnað á föður minn og Bergþór bróður þar til hann hafði lokið læknisnámi og var farinn til Danmerkur í framhaldsnám árið 1947. Á mig hefur hún líka saumað og mín börn en allt lék í höndunum á henni. Mamma var líka ákaflega vel gefin, skáldmælt og skrifaði smásögur, þulur og ljóð sem komu út í bókum og tímaritum.

Pabbi - Jakob Jóhannesson Smári

Faðir minn hét Jakob Jóhannesson og var fæddur að Sauðafelli í Miðdölum, Dalasýslu

9. október 1889. Hann var sonur séra Jóhannesar Lárusar Lynge Jóhannessonar prests að Kvennabrekku og Steinunnar Jakobsdóttur (Guðmundssonar prests á Sauðafelli sem var á þjóðfundinum 1851). Jakob var elstur sex barna þeirra sem fæddust á níu árum. Við fæðingu sjötta barnsins fór mjólkin í blóðið hjá Steinunni. Hún sagði enga vitleysu heldur æddi á milli bæja og var alltaf í heimsóknum. Jóhannes gat ekki átt konu sem var svona svo hann skildi við hana og börnin urðu eftir hjá honum. Seinna var Steinunn hjá Sigurði syni sínum og fjölskyldu hans í Reykjavík. Jóhannes náði sér í aðra konu sem hét Guðríður Helgadóttir og var mikil dugnaðarkona. Guðríður missti tvö börn sín í sömu vikunni úr kíghósta. Hún varð svo sorgbitin að hún neitaði að borða. Siggi, bróðir pabba var sex eða sjö ára gamall og mataði hana. Henni batnaði en síðar þegar hún varð gömul kona rifjaði hún þetta upp: „Ég gleymi því aldrei þegar Siggi mataði mig þegar ég var veik. Barninu bauð ekki við að setja eina skeið upp í sig og aðra upp í mig,“ sagði hún. Jakob þótti bráðþroska barn og þegar hann var fjögurra ára gamall var honum komið í fóstur til Katrínar Jónsdóttur á Þóroddstöðum. Katrín var þá ekkja, efnuð og barnlaus, og hafði komið heim til prestsins og boðist til að taka hann til uppfósturs.

Árið síðar, þegar Jakob var fimm ára, langaði Jóhannes, sem þá var giftur aftur að fá hann heim og reyndi að rifta samningnum. Hann fór heim til Katrínar með sýslumanni til að fá drenginn til baka og reyna semja við Katrínu. Þá vildi Jakob ekki fara frá henni. Hún var, eins og flestar konur þess tíma, í þremur pilsum og hann faldi sig undir þeim. Hann hélt svo fast í fæturna á henni að ekki var nokkur leið að slíta hann þaðan með góðu. Þá var skrifað upp á það að Katrín kæmi honum til mennta. Þegar Jakob var tíu ára gamall var honum komið til séra Jóns Árnasonar í Otradal, Barðastrandasýslu. Jakob fór síðan í Menntaskólann í Reykjavík. Þegar hann var í 6. bekk var ofninn í kennslustofunni sprengdur og hann tók þátt í því. Eftir það las hann utanskóla. Svo gerðist hann heimiliskennari hjá Skúla og Theodóru Thoroddsen á Bessastöðum, var líka heimiliskennari hjá Jakobi Hafstein á Akureyri. Síðar fór hann til náms í Kaupmannahöfn.

Mamma og pabbi kynnast

Þegar mamma var búin að vinna við saumaskap í Kaupmannahöfn í nokkurn tíma var henni boðið í hús ásamt fleiri Íslendingum. Þar hitti hún Ásmund Guðmundsson, sem varð seinna biskup, en mamma hafði verið kaupakona í tvö sumur sem unglingur í hjá séra Guðmundi í Reykholti í Borgarfirði, föður Ásmundar. Ásmundur bauð mömmu upp á gamlan kunningsskap í leikhús og þau fóru einnig saman á Íslendingaskemmtun þar sem hún hitti pabba í fyrsta skipti. Þar urðu þau svolítið hrifin en þau kynntust síðar heima hjá Ásmundi. Þau fóru að hittast og svo þróaðist sambandið á milli þeirra. Pabbi var hins vegar trúlofaður á þessum tíma Magneu Guðmundsdóttur frænku sinni sem var systir Þórarins Guðmundssonar fiðluleikara og tónskálds. Mömmu fannst það ógurlegt alveg hreint en ætlaði ekki að spilla því. Hún réði sig því, vorið 1910, á hótel úti á landi. Pabbi skrifaði henni öðru hvoru, sendi henni dásamleg ástarljóð og þegar hún kom aftur til Kaupmannahafnar var allt við það sama hjá þeim. Jakob ætlaði að hætta með Magneu fyrir mömmu en fólk var ekki ánægt með þær málalyktir og það endaði með því að mamma og pabbi ákváðu að slíta sambandinu. Þau áttu sinn síðasta fund eitt kvöldið en þá gerðist svolítið sem ekki varð aftur tekið. Barn kom undir og barnið var ég. Þau vissu það ekki þá og skildu að skiptum en þá orti pabbi kvæðið:

 

Manstu, er saman við sátum

við sorgþungan úthafsins nið?

Úr djúpanna dulræðu gátum

við drógum hinn skammvinna frið,

því eftir var aðeins að skilja,

og yfir þig skugganum brá

og eitt er, að unna og dylja,

og annað, að sakna og þrá.

 

En svo huldist máninn í móðu,

hann maraði' í skýjanna sæ,

og ástanna andvörpin hljóðu

bar ein út í haustkvöldsins blæ.

Við gáðum ei vits eða vilja

í voldugri ástríðu þá,

því eftir var aðeins að skilja

og aðeins að sakna og þrá.

 

Þegar kom í ljós að mamma var barnshafandi tók Jakob endanlega ákvörðun, hann vildi mömmu. Hann var ekki nema hálfnaður í íslenskunámi við háskólann þegar þetta gerðist, átti eftir tveggja ára nám. Hann hefði getað verið búinn en var svo mikið í félagsmálum, að flytja ræður og yrkja, að námið hafði setið á hakanum. Jakob tók sig á og vann svo kappsamlega að hann lauk náminu á einu ári. Síðar sagði hann að barnið hefði verið hans gæfa því það hefði veitt honum svo mikla ábyrgðartilfinningu.

Ég

Mamma og pabbi gátu ekki gift sig strax þar sem pabbi var á Garðstyrk en hann fengu einungis ógiftir námsmenn. Það var því ekki um annað að ræða en að mamma ynni og pabbi væri áfram á Garði en hvað átti að gera við blessað barnið? Mamma saumaði þar til hún gat það ekki lengur sökum óléttunnar. Þá fór hún á heimili þar sem hún fékk fæði og húsnæði gegn því að vinna heimilisverk og þar gat hún verið með mig eftir fæðinguna. Mamma var fimm árum eldri en pabbi og var 27 ára þegar ég fæddist. Þegar ég var orðin þriggja til fjögurra mánaða gömul ákváðu þau að fara með mig heim til Íslands. Mamma var búin að skrifa heim og fá leyfi til að koma með mig til mömmu sinnar og systra en þær bjuggu saman á Stýrimannastíg 8b (nú Bárugata 30), í húsi sem Þorkell mágur mömmu byggði. Áður en af því varð fór mamma með mig til læknis til að fullvissa sig um að ekkert væri að mér og að ég þyldi ferðina. Að því búnu fórum við mæðgur á skipsfjöl. Á leiðinni gerði veður vont og það var svo mikill sjógangur að mamma missti alla mjólk úr brjóstunum. Einn skipverjinn aumkvaðist yfir þessa nýbökuðu móður og lét henni eftir kojuna sína. Þegar komið var í land í Edinborg var mamma orðin dauðhrædd og ég grét stanslaust af svelti. Þá fór þessi skipverji í land og keypti maltflöskur og gaf henni. Hún fékk mjólkina aftur og ég tórði ferðina.

Heima tóku amma Björg og tvær systur mömmu, þær Sigríður og Inga, mig að sér en þær bjuggu í húsinu ásamt mönnum sínum þeim Þorkeli smiði og Birni sjómanni. Fyrir á heimilinu var sonur Ingu, Hafsteinn sem var rúmlega tveggja ára. Hjá þeim var ég til þriggja ára aldurs og hafði það gott. Amma var alltaf með mig á hnjánum en hún var um sextugt þegar þetta var. Þegar ég var nokkurra mánaða gömul kom séra Jóhannes föðurafi minn í heimsókn. Hann langaði sem von var að sjá fyrsta barnabarnið sitt. Ég var í vagni fyrir utan húsið og hann kíkti á mig. Eitthvað hefur hann blásið á mig því ég fékk barnaveiki en skömmu áður höfðu tvö barna Jóhannesar dáið úr henni. Alveg ægilegt. Nema hvað, ég varð fárveik og læknir sem var sóttur sagði ekkert væri hægt að gera. Mér þyngdi dag frá degi og eitt kvöldið sagði læknirinn að ef ég myndi lifa til morguns þá væri von. Ragnhildur, sem var gift Sigurði bróður mömmu, bjó í kjallaranum og hún bauðst til að vaka yfir mér. Ég var fárveik og gat varla andað en um klukkan sex um morguninn sá hún að höndin var byrjuð að hreyfast. Ég snéri mér svo á hliðina og átti aldeilis eftir að verða eldri en þetta. Síðar veiktist ég af kíghósta og mislingum en þessi veikindi höfðu þau áhrif að það brunnu í mér allar barnatennur. Ég veiktist þó ekki þegar spænska veikin gekk árið 1918. Þá lá flest allt heimilisfólkið og ég man að ég var send í apótekið eftir lyfjum og göturnar voru svo til mannlausar.

Mamma og pabbi koma heim

Á meðan mamma og pabbi voru úti sendu þau mér kort og bréf. Þegar ég var þriggja ára gömul komu þau heim til Íslands. Það var búið að segja mér að von væri á mömmu og pabba og ég ætlaði aldrei að skilja það. Samt sem áður vildi ég strax fyrsta kvöldið sofa á milli þeirra. Mér fannst þau ekki vera ókunnugt fólk en pabbi var svo mikil barnagæla. Bróðir minn gerði stundum grín að því að þegar pabbi kom heim frá útlöndum hafi hann haft yfirvaraskegg, verið með staf og eftirnafnið Smári. Hann var náttúrulega óskaplega fínn í tauinu því mamma var búin að dubba hann svoleiðis upp, sauma á hann ný föt. Ég á gamla mynd af þeim sem var tekin á Seyðisfirði þegar þau komu aftur til Íslands. Mamma og pabbi fengu inni hjá ömmu og móðursystrum mínum en þar var óskaplega lítið pláss. Til að byrja með var oft erfitt hjá þeim. Pabbi fékk tímakennslu í Verslunarskólanum og Kvennaskólanum og kenndi einnig í ýmsum öðrum skólum en svo varð hann kennari við Menntaskólann í Reykjavík. Það var ekki vel launað starf framan af. Það bjargaði málum að mamma gat saumað allan fatnað en hún saumaði bara fyrir fjölskylduna. Það var svo sem nóg að gera en hún hafði alltaf vinnukonur. Þótt það væri þröngt í sambýlinu á Stýrimannastígnum var stundum slegið upp balli á laugardagskvöldum, spilað á munnhörpu eða harmonikku. Þar lærði ég alla gömlu dansana, Lancier og amerísku dansana. Svo voru pönnukökur og kleinur á eftir, stundum líka eggjapúns. Fjölskyldan var svo stór og það var alltaf voðalega gaman. Sigurður, bróðir mömmu, var ágætlega efnaður og keypti síðar vestari hluta hússins á Garðastræti 4 á horni Garðastrætis og Fischersunds. Við fengum þar inni og höfðum þrjú herbergi og eldhús til umráða og þótti gott. Ég fékk þó ekki sérherbergi enda þurfti ég ekki á því að halda, átti bara eina kommóðu. Mamma saumaði á mig svo fín föt og oftar en einu sinni voru aðrar stúlkur í nágrenninu komnar í svipuð föt stuttu seinna. Við bjuggum í Garðastræti 4 alla mína bernsku, þar fermdist ég og bjó allan tímann sem ég var í menntaskóla. Svo byggðu pabbi og bróðir hans saman Öldugötu 5. Þegar ég fermdist var haldin heilmikil fermingarveisla og meira að segja dansað. Ég man að ég dansaði við föðurbræður mína en afi eignaðist 17 börn en þar af dóu nokkur í bernsku. Ég var í hvítum kjól með hvítan blómakrans um höfuðið en ekki var viðlit að ég fengist til að ganga til altaris. Ég vildi alls ekki láta taka mynd af mér en mamma ætlaði að draga mig nauðuga. Ég sé eftir því núna. Ég fékk úr í fermingargjöf frá mömmu og pabba og hjól frá ömmu, Ingu og öllu móðurfólkinu. Svo fékk ég líka armbönd, nælur og margt fleira.

Sveitin

Salvör Þorkelsdóttir var systir mömmu en hún bjó í Varmadal á Kjalarnesi. Hún varð ung ekkja með sjö börn, það yngsta þriggja ára og elsta fimmtán ára. Hún bjó með þeim af miklum skörungsskap. Á hverju sumri fórum við upp í Varmadal og vorum hjá þeim. Við fengum gott herbergi uppi í risinu í húsinu en þar var eldavél eða prímus svo við elduðum fyrir okkur. Við byrjuðum á því að fara þangað á sumrin þegar Bergþór bróðir var á fyrsta ári, 1922. Það var sögulegt ferðalag því við þurftum að fara þangað fótgangandi. Auk mín, Bergþórs og mömmu var Imba með okkur en hún var tólf ára gömul barnfóstra. Við þurftum að ganga um 25 kílómetra á lélegum malarvegi og ég man að aumingja Imba var alltaf að brjótast áfram með vagninn sem var á litlum hjólum og afskaplega erfitt að keyra hann. Einhvers staðar fyrir neðan Lágafell valt vagninn og barnið með innan um rúmfötin. Sem betur fer slasaðist Bergþór ekkert enda tóku sængurfötin af honum mesta fallið. Þarna var ég á hverju einasta sumri þangað til að ég tók stúdentspróf. Ég man að ég fór með stúdentshúfuna í réttirnar á Kollafjarðareyrum.

Börn Salvarar, þrjár stelpur og fjórir strákar, voru öll óskaplega duglegt fólk. Strákarnir voru eldri en ég en þeir ræstu allar mýrar og sléttuðu tún. Ég var jafngömul miðsysturinni en þær þurftu að vinna mikið. Við leigðum þarna og því þurfti ég ekki að gera neitt, fór í mesta lagi út á tún þegar veður var gott mér til skemmtunar. Fyrir ofan bæinn var brekka sem hét Hjálmurinn og þar málaði mamma myndir. Hún fór stundum út á tún og var að sýsla ýmislegt. Pabbi fór alltaf í þessa feiknarlegu göngutúra á hverjum einasta degi, gekk niður í Kollafjörð - eða stóra rúnt og litla rúnt eins og hann kallaði það. Á heimilinu var orgel og frændsystkini mín voru mikið söngfólk. Þegar krakkarnir voru vaxin úr grasi var oft ball í Varmadal á laugardagskvöldum. Þá þeysti unga fólkið úr sveitinni að bænum á hestum og það var óskaplega gaman. Við lærðum alls konar valsa og það var mikið sungið. Og hvað það var hægt að dansa í litlu plássi! Það varð að skiptast á að vera á gólfinu. Þetta var allt svo skemmtilegt sem mest gat verið. Og ég man hvað mér fannst alltaf dauflegt þegar ég kom til Reykjavíkur á haustin. Einu sinni að loknum slætti man ég að við unga fólkið fórum ríðandi á hestum í kringum Esjuna. Þá var stoppað á einum stað í Kjósinni og dansað, svo komið við á ýmsum bæjum, meðal annars á Möðruvöllum, og þegið kaffi og meðlæti. Frændur mínir fjórir, synir Salvarar, voru feiknarlegir íþróttamenn. Á kvöldin þegar það var þurrt voru þeir niðri á eyri að æfa glímu, kúlukast og 100 metra hlaup. Þorgeir varð síðar glímukóngur Íslands og einnig meistari í kúluvarpi. Ágúst sem þótti með allra glæsilegustu mönnum, fékk einhvern tímann fegurðarverðlaun í glímu. Frændur mínir voru einnig miklir hestamenn og áttu fína gæðinga. Þeir kepptu meira að segja í skeiði í Reykjavík þegar þeir voru orðnir fullorðnir menn. Á haustin var svo farið í réttirnar á Kollafjarðareyrum. Þá var líka dansað í hálfgerðu kargaþýfi en ég fann nú ekkert fyrir því og fannst voðalega gaman.

Vinnukonur

Við vorum yfirleitt með eina vinnukonu hálfan daginn og mér fannst þær afskaplega ævintýralegar. Ein þeirra hét Sigríður Sigurðardóttir, Sissa, og varð seinna málari. Vinnukonurnar sváfu á bedda í kontórnum, þær þurftu ekkert herbergi enda var það ekki til. Þær unnu fram að kaffi en áttu svo með sig sjálfar. Sissa var aðeins 16 eða 17 ára gömul þegar hún var hjá okkur og ég níu ára. Ég hafði aldrei séð svona fallega konu á ævi minni, hún var með húð eins og fílabein og hár niður á axlir, dálítið brunnið því hún var alltaf með járnið á lofti til að krulla það. Þegar hún kom fyrst var hún í ökklaháum skóm sem hún hafði ekki reimaða og pabbi sagði við hana: „Heyrið þér fröken, ég held að þér séuð ekki komin á fætur. Þér eruð ekki komnar í skóna. “Sissa var mikil listakona, alltaf að teikna og ég horfði á full aðdáunar. Þegar hún kom til okkar þennan vetur var hún búin að vera í níu vistum og hún var einnig stutt hjá okkur. Strákarnir voru alltaf á eftir henni og einn þeirra, Tryggvi Magnússon málari, var alltaf að gefa henni gjafir. Ég man að hann kom með skó handa henni og ilmvötn en þau giftust seinna. Sissu varð voðalega lítið úr verki en allt gekk út á að punta sig. Hún var alltaf í hvítri skyrtu og svörtu pilsi þótt heita ætti að hún væri í verkum, var eins og dekurrófa á heimilinu. Pabbi var alltaf að spjalla við hana en hún var nefnilega greind. Svo hætti hún bara í vistinni en hélt áfram að koma í heimsókn. Eitt sinn, löngu síðar, mætti ég henni úti á götu og hún sagði mér að hinkra við á meðan hún skrapp inn í hús. Þá gaf hún mér styttu af nunnu sem hún hafði búið til og sagði: „Þú varst nú alltaf svo gott barn.“ Næsta vinnukona var afskaplega skrítin, Málmfríður Sigurðardóttir frá Munaðarnesi, en hún var skáldkona. Þegar hún kom fyrst var hún með sjal upp að eyrum og svuntu, ósköp ófríð að því er virtist og púkaleg. Mömmu leist vel á hana af því að hún var ólík Sissu og gerði ráð fyrir að hún kynni eitthvað fyrir sér. Næsta morgun kom hún í vistina og þá var mamma ekki komin á fætur. Mamma hagaði sér alltaf eins og fín frú, sem hún var líka, náttúrulega. Hún lét helst færa sér kaffið í rúmið og svona. Svo kom blessunin hún Málmfríður og Inga var þá stödd í eldhúsinu. Þá sagði Málmfríður: „Heyrið þér frú Inga, á hverju á ég að byrja?“„Færa frúnni morgunkaffið,“ sagði Inga. „Vilduð þér þá segja mér þegar sýður á katlinum?“ sagði Málmfríður. „Vitið þér það ekki og eruð að ráða yður í vist? Hvaðan komið þér?“ „O, ég kem nú bara heiman frá mér, frá Munaðarnesi. Sko ég er ekki að þessu af því ég þurfi að vinna fyrir mér. Ég vil vita hvernig það er að vera ambátt!“ Svo sagði Inga henni til og hún fór með kaffið með tilþrifum. Síðan kom hún aftur og Inga sagði henni að sækja kolin niður í kjallara.

„Og hvar eru þau?“ spurði Málmfríður. „Nú undir stiganum. Taktu með þér fötuna, það er skófla þar,“ sagði Inga. Málmfríður kunni ekki neitt. Ég þarf ekki að orðlengja það að hún varð skrítnari með hverjum deginum. Eitt sinn var mamma að laga blóm í glugga og Málmfríður stóð við hliðina á henni. Þá sagði hún: „En hvað þér eruð komnar með margar hrukkur, frú Helga.“ „Já, maður verður svona með aldrinum,“ sagði mamma bara. Svo sagði hún einu sinni við pabba: „Ég var kennari í Engey í fyrravetur og krökkunum var svo illa við mig. Af hverju haldið þér að það hafi verið?“ Þá svaraði pabbi: „Ætli þér séuð ekki bara of hreinskilnar.“

Þórbergur Þórðarson kom alltaf í heimsókn einu sinni í mánuði og Málmfríði langaði ægilega til að hitta hann. Það var auðfengið og þegar Þórbergur kom næst var hún kynnt fyrir honum. Svo sagði hún: „Ég ætla sýna yður svolítið sem ég var að kaupa.“ Það var þá teiknað blóm sem átti að sauma í. Hún spurði Þórberg hvort hann vissi hvaða blóm þetta væri. Hann sagði það vera Lótus og spurði af hverju hún vildi vita það. „Ég vildi bara vita hvort þér vissuð það.“ Eftir að hún fór sagði Þórbergur að hann vonaðist til að rekast ekki oftar á þessa skelfilegu manneskju. Yngvi og Sigurður, föðurbræður mínir, voru kostgangarar heima. Málmfríður hafði frétt að Yngvi væri á lausu og að hann væri svo fallegur maður. Hún ætlaði að ná í hann en það gekk ekki upp því hann var nú ekki ginnkeyptur fyrir henni. Málmfríður og Sissa kynntust hjá okkur og öfunduðu hvor aðra svo mikið. Málmfríður öfundaði Sissu af fegurðinni og hvað hún var góð að teikna. Sissa öfundaði Málmfríði af ríkidæminu. Þær voru alltaf að tala illa hvor um aðra en svo hættu þær báðar að koma. Það endaði með því að Málmfríður fór því það var ekki hægt að hafa hana en allt var það í góðu. Síðar varð hún berklaveik og fór á Vífilstaði. Þar kynntist hún Guðjóni Jónssyni og þau giftust. Málmfríður skrifaði síðar þrjár bækur og þýddi margar.

Stúdentsárin

Ég fór í Menntaskólann í Reykjavík árið 1924. Árið 1929 fór bekkurinn minn í ferð til Hornafjarðar en það var hefð fyrir því að fimmtubekkingar færu í ferðalag. Með okkur fóru Guðmundur Böðvarsson kennari, sem var sjálfmenntaður jarðfræðingur og svo mikið séní að hann fékk menntaskólastöðu og Anna Bjarnadóttir enskukennari. Sjötti bekkur Menntaskólans á Akureyri kom að norðan og með honum var Pálmi Hannesson. Við fórum sjóleiðina með varðskipi og vorum mikið sjóveik á leiðinni. Við lágum

í kojunum og það var mikill öldugangur. Ég man að Fanney, bekkjarsystir mín, var sérstaklega veik en stýrimaðurinn varð ástfanginn af henni og strengdi handklæði fast utan um hana í lækningarskyni. Svo var hann alltaf að koma til að herða á handklæðinu utan um aumingja Fanneyju. Við komumst svo á endanum til Hornafjarðar en ég lenti í því þegar við gengum upp á skriðjökul að snúa mig á fæti. Þá tók einn norðanmanna, Gunnar Björnsson, glæsilegur, hár og grannur, vaskur maður, að sér að bera mig og styðja.

Nýstúdent á Alþingishátíð

Árið 1930 varð ég stúdent. Sama ár var Hótel Borg opnuð og það var mikið ævintýri, alveg dýrðlegt. Svo var haldin þjóðhátíð í tilefni 1000 ára afmælis Alþingis og þess vegna komu stúdentar frá Danmörku í heimsókn með skipinu Hellig Olaf. Við sem vorum nýstúdentar úr MR fórum saman á Þingvelli og vorum í tjaldi í Hamragjá. Það er til mynd af mér að heilsa Kristjáni X en við stóðum í röð stelpurnar. Það var óskaplega gaman að þessu öllu saman, veðrið var svo gott og tjöld um alla vellina. Á Þingvallavatni gekk báturinn Grímur geitskór út í Sandey. Þar sem fólkið var svo margt mátti hver og einn einungis fara einu sinni í eyjuna en ég var svo heppin að komast þrisvar sinnum með jafn mörgum herrum. Um kvöldið var dansað í Valhöll. Þegar við fórum aftur til Reykjavíkur fór fyrst að færast fjör í leikinn. Þá var ball á tveimur stöðum, Hótel Íslandi og Hótel Borg og maður gekk á milli því veðrið var svo gott. Ég man að ég var í óskaplega fallega bláum kjól sem mamma hafði saumað, með víðu tvö- eða þreföldu pilsi, sjösett og svo var undirsilki og víðar púffermar. Á Hótel Borg dansaði ég við gríðarstóran Svía sem var svo stór að ég ætlaði að tala við hann varð ég að reigja hálsinn á milli herðanna. Þá bankaði í hann Dani á miðju gólfi og vildi fá að dansa við mig, svona „Amerikan style“. Daninn sleppti mér ekki það sem eftir var af ballinu og við fórum út að spássera. Það var komið undir morgun og glampandi sólskin. Við gengum suður með tjörninni í blanka logni og hann var svo hrifinn af bænum, allt svo fallegt og skemmtilegt. Þessi maður var danskur í aðra ættina og íslenskur í hina, móðir hans hét Elínborg og fyrirmenn hennar forfeður. Pabbi hans var kapteinn í danska hernum, myndarlegur maður. Kvöldið eftir var haldið ball í skipinu og ég var boðin þangað. Ég var með þessum sama manni þar og þá kom upp deila milli eins Íslendingsins, gott ef það var ekki Finnbogi Rútur, og eins skipsmannsins en Finnbogi lét Danahatrið eitthvað bitna á honum. Þá reis minn maður upp og skammaðist. Ég hélt fyrst með Íslendingnum og fannst Daninn óforskammaður en sættist svo á að hann hefði átt skilið átyllu. Það voru mörg dekk á skipinu og alls staðar dansað. Þegar Daninn minn fór eitthvað frá þá sagði hann: „Þú víkur ekki hér frá,“ og ég sagði að ég færi nú ekki út í buskann. Svo sáum við sólina síga til viðar og koma aftur upp við Esjuna, allt í ljóma. Tveimur dögum síðar átti skipið að fara en Daninn gat ekki yfirgefið Ísland. Hann sendi skeyti til pabba síns um að hann yrði lengur því hann hafði fundið svolítið hér. Hann var hér í mánuð og hélt til hjá Páli Einarssyni hæstaréttardómara sem var eitthvað skyldur honum. Við vorum mikið saman þennan tíma en þegar hann fór var þó ekkert ákveðið, við ekkert trúlofuð eða svoleiðis.

Endurfundir

Næstu ár skrifuðumst við Daninn á þótt ekkert yrði af endurfundum. Árið 1935 fór ég svo á stúdentamót í Danmörku. Fimm ár voru liðin og ég búin að upplifa margt, meðal annars hafði ég kynnst Yngva Pálssyni sem seinna varð maðurinn minn og í raun búin að missa áhugann á Dananum. Þegar ég kom til Danmerkur tók Daninn á móti mér á bryggjunni. Í staðinn fyrir

að fara í stúdentamóttökuna eins og allir hinir þá fór hann með mig heim til Péturs læknis í Holti sem var giftur íslenskri frænku hans. Mér var tekið með kostum og kynjum af þessari frænku og manni hennar en við settumst þar upp og ég gisti þar. Svo fórum við í heimsóknir um allt en fólkið hans var allt saman dómarar, hæstaréttardómarar, yfirlæknar og alls konar embættisfólk. Við fórum meðal annars saman í ferðalag um Jótland en hann átti ættingja þar. Kvöldið áður en við lögðum af stað þurfti ég að fara í Magasin Dulore til að kaupa mér undirfatnað og fleira. Það var síðla dags en við vorum síðan að fara í boð. Ég keypti það sem mig vantaði og hafði pakkana á hverjum putta. Svo þurfti ég að fara á snyrtinguna sem var á þriðju hæð og var þar eitthvað að dúlla mér í rólegheitum. Þegar ég kom út var búið að loka og klósettdyrnar læstar. Ég var innilokuð í þessu stóra snyrtiherbergi, bankaði og bankaði, en allir voru farnir og húsið tómt. Ég fór að hyggja að einhverri útgöngu og sá franskan glugga með örsmáum rúðum. Ég var svo létt, bara 62 kíló og náði að troða mér út um gluggann á pall. Ég leit þar í kringum mig og var alveg jafn illa sett. Svo sá ég mjóan brunastiga sem var fastur við vegginn og það var ekki um annað að ræða en að ráðast til niðurgöngu. Áður en ég lagði í hann varð mér litið í kringum mig og sá fólk í nálægum húsum úti í glugga sem fórnaði höndum. Ég hefði sjálfsagt getað beðið þarna uppi eftir hjálp en datt það ekki í hug enda vissi ég að Daninn biði eftir mér einhvers staðar niðri. Ég fór niður stigann og tókst að hafa alla pakkana með mér en þeim var svo haganlega pakkað. Þegar ég kom niður var húsvörðurinn í dyrunum og sagði: „Þú ert með fullt af vörum“. Ég játti því og sýndi honum allar nóturnar, svo gekk ég hinum megin við húsið þar sem Daninn minn beið með öndina í hálsinum þar sem búið var að loka búðinni. Svo fórum við í veisluna en þetta ævintýri mitt vakti mikla hneykslan og undrun. Það þótti skrítið að afgreiðslufólkið athugaði ekki hvort einhver væri inni á snyrtiherbergjum áður en það lokaði. Mér finnst núna að ég hafi verið kaldrifjuð að þora þessu. Í þessari ferð komst ég aldrei á skemmtanir hjá stúdentum. Ég og Daninn höfðum skrifast á í fimm ár og hann hafði beðið mig að koma áður en ég ekki haft tök á því þar sem ég var meðal annars í frönskunámi í Háskólanum. Nú vildi hann endilega að við myndum trúlofa okkar sem við og gerðum. Ég veit ekki hvers vegna í ósköpunum ég lét glepjast þarna, ég segi það alveg eins og er. Þegar ég kom heim þá sá ég eftir öllu saman. Ég fékk aldrei að senda hringinn til baka þótt ég vildi og heldur ekki armband sem var ættargripur frá móður hans. Við hættum saman í góðu og héldum alla tíð sambandi.

Háskólanám

Eftir stúdentspróf byrjaði ég nám i lögfærði við Háskóla Íslands. Ég sótt þó einungis nokkra tíma en mér þótti hún leiðinleg. Eftir það fór ég í frönsku og það var voðalega gaman en ég var í frönskunámi í tvo vetur. Þá hætti ég því mig vantaði aur og það var ekki hægt að halda manni uppi endalaust. Ég reyndi að komast í læknisfræði og lyfjafræði en þá var mér sagt í einhverju apótekinu að það væru bara visst margir sem kæmust að úti. Ekki var hægt að taka nema tvö ár hérna en svo var óvissa með framhaldið. Ég man hins vegar ekki af hverju ég hætti við læknisfræðina.

Vinna

Ég fór að vinna á gjaldeyrisskrifstofunni en það var erfitt að fá vinnu á þessum tíma. Ég fékk 150 krónur í byrjunarkaup sem hækkað svo í 200 krónur. Svo fór ég til Danmerkur og var að vinna þar um tíma. Árið 1940 giftist ég Yngva Pálssyni og sótti aftur um á gjaldeyrisskrifstofunni en fékk ekki því búið var að loka á að giftar konur ynnu vegna mikils atvinnuleysis. Þá var auglýst eftir enskum bréfritara í fyrirtækinu Magna og ég vann þar hálfan daginn sem passaði mér ágætlega því ég var komin með heimili. Þar var mér boðið 200 krónur í kaup en ég spurði þá hvað maðurinn sem sinnti starfinu á undan mér hefði fengið og var sagt að hann hefði fengið 300 krónur. Ég vildi fá sömu laun og hann hafði verið með og svo varð. Mér gekk vel að skrifa bréfin og meira að segja eftir að ég var ófrísk og var heima þá hélt ég áfram að skrifa fyrir fyrirtækið.

Yngvi

Yngvi Pálsson var fæddur 22. maí 1909 og var gamall skólabróðir minn úr Menntaskólanum í Reykjavík. Eftir stúdentspróf hann fór til Damstadt í Þýskalandi til að læra vélaverkfræði en hann var mikill stærðfræðingur og fékk þar

meðal annars verðlaun. Eftir tveggja ára nám fékk hann brjósthimnubólgu og lá veikur í sex mánuði. Þá eyddi hann öllu því lánsfé sem hann hafði fengið til námsins og varð að snúa heim. Hann ætlaði að fara út aftur en af því varð ekki. Hann fékk síðan vinnu hjá Eimskip og var þar fulltrúi. Við giftum okkur 8. júní 1940 og þann 7. júlí 1943 eignuðumst við Helgu Björgu. Jakob fæddist svo 23. nóvember 1945. Yngvi lést 3. júlí 1980 eftir langvarandi veikindi.

(Heimild frá Eyrúnu Ingvadóttur, 2016).

Afhending: Eyrún Ingadóttir og Helga Björg Yngvadóttir afhentu Borgarskjalasafni Reykjavíkur skjalasafn Katrínar J. Smára, 23. júní 2016.

Heimildahandrit sett fremst í öskju nr. 1.

Innihald: Bréf, vottorð, ræður, smásögur, kennslugögn, blaðagreinar, þýðingar, ljósmyndir o.fl.

Tími: 1909-2001.

Magn: 8 öskjur.

Skjalaskrá
Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn E-595 Katrín J. Smári (1911 - 2010)
Flokkun
Flokkur Einstaklingar
Útgáfuár 2016
Útgefandi Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Leitarorð kona, fjölskylda, bréf, handrit, menntamál, kennari, stjórnmál, skírteini, ljóð, smásögur, ljósmyndir.