Nánari upplýsingar | |
---|---|
Nafn | Hulda Dóra Jakobsdóttir og Finnbogi Rútur Valdimarsson |
Númer | E-600 |
Lýsing | Hulda Dóra Jakobsdóttir fæddist 21. október 1911 í Reykjavík. Móðir hennar var Guðrún Sesselja Ármannsdóttir fædd 20. september 1886, dóttir Katrínar Sveinsdóttur og Ármanns Jónssonar, skipasmiðs og hreppstjóra á Saxhóli á Snæfellsnesi. Systkini Guðrúnar sem upp komust voru: Sveinborg húsfreyja í Reykjavík og Kristinn rektor Menntaskólans í Reykjavík. Faðir Huldu var Jakob Bjarnason vélstjóri fæddur 1888 á Flateyri, sonur Hildar Elísabetar Þorláksdóttur frá Skálavík og Bjarna Bjarnasonar sjómanns frá Sæbóli á Ingjaldssandi. Þau Guðrún og Jakob giftu sig í Reykjavík 21. október 1910. Skömmu síðar lést Hildur Elísabet og ungu hjónin tóku þá systur Jakobs Margréti að sér. Margrét lést úr berklum á Vífilsstöðum rúmlega tvítug en skildi eftir sig undurfallegar hannyrðir. Jakob og Guðrún bjuggu fyrstu hjúskaparárin við Bergstaðastræti, en fluttu síðan á Skólavörðustíg 23 þar sem þau byggðu tveggja hæða steinhús. Þau eignuðust fimm börn: Gunnar, Ármann, Halldór og Guðrúnu, auk Huldu Dóru. Hulda Dóra lauk stúdentsprófi 1931 og prófi í forspjallsvísindum við Háskóla Íslands 1932. Hún hafði hafið nám í rómönskum tungumálum þegar faðir hennar féll frá 1933. Jakob fórst í miklu sjóslysi við Grindavík 10. apríl 1933, þegar togarinn Skúli fógeti strandaði. Togarinn var á leið frá Englandi, en Gunnar bróðir Huldu var einn af áhöfninni í þetta sinn og drukknaði hann einnig. Kreppan mikla var þá skollin á og engin leið fyrir Guðrúnu að kosta bæði háskólanám Huldu og nám bræðranna Ármanns og Halldórs sem þá voru í Menntaskólanum í Reykjavík. Hulda fékk þá vinnu við erlendar bréfaskriftir hjá Efnagerð Reykjavíkur sem þá var til húsa við Laugaveg þar sem nú er apótekið Lyfja. Guðrún hóf einskonar veitingarekstur og tók “kostgangara” í mat heim til sín. Einn þeirra var Finnbogi Rútur Valdemarsson, ritstjóri Alþýðublaðsins, þá nýkominn frá námi erlendis. Finnbogi Rútur Valdemarsson fæddist 24. september 1906 í Fremri- Arnardal við Skutulsfjörð í Norður-Ísafjarðarsýslu. Hann var sonur Elínar Hannibalsdóttur og Valdimars Jónssonar bónda þar, en hann fæddist að Eyri í Ingólfsfirði í Strandasýslu. Finnbogi var skírður í höfuðið á ömmubróður sínum, séra Finnboga Rút Magnússyni en Elín móðir hans hafði að miklu leyti alist upp hjá ömmu sinni Guðrúnu Magnúsdóttur (1802-) sem hafði tvítug að aldri gifst séra Arnóri Jónssyni, prófasti í Vatnsfirði sem þá var um sextugt. (Sjá E-599, bréfasafn Sigríðar Valdemarsdóttur í Borgarskjalasafni). Finnbogi Rútur var í hópi 10 barna foreldra sinna. Fjögur létust í æsku og Arnór, loftskeytamaður, lést rúmlega tvítugur úr bráðaberklum, en Jón vélstjóri á Ísafirði, Guðrún ljósmóðir í Reykjavík, Hannibal skólastjóri, alþingismaður og ráðherra og Sigríður ritari hjá Landssíma Íslands á Ísafirði og síðar í Reykjavík náðu öll háum aldri. Elín og Valdemar hófu búskap sinn að Strandseljum við Ísafjarðardjúp en fluttu síðan í Fremri- Arnardal og bjuggu þar í nokkur ár. Þeim mun hafa þótt þröngt um sig í Fremra- Arnardal og vildu stærri jörð. Þau fluttu þessvegna að Bakka í Ketildölum við Arnarfjörð. Þar urðu þau fyrir þeirri ógæfu að bær þeirra brann til kaldra kola á nýársnótt. Eftir það bjuggu þau á ýmsum stöðum við Arnarfjörð en fluttust síðan í Hnífsdal við Ísafjarðardjúp og að lokum til Ísafjarðar. 1920 var Valdemar skorinn upp við magasári á spítalanum á Ísafirði en lést skömmu eftir uppskurðinn. Systkinin voru öll góðum gáfum gædd og vildu ganga menntaveginn en fóru öll að vinna eftir föðurmissinn. Finnbogi Rútur fékk sitt fyrsta sjóferðabréf 14 ára en var fljótlega tekinn inn á skrifstofu hafnarstjóra. Hann las svo heima og tók gagnfræðapróf á Akureyri en settist síðan í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi 1926. Hann hóf nám í lögfræði við Háskóla Íslands en hélt síðan til Parísar og síðar Genf og lagði stund á alþjóðarétt við háskóla þar. Einnig dvaldi hann við nám í Róm og Berlín. Hann kom heim 1933 og gerðist ritstjóri Alþýðublaðsins. Hann var einnig á þessum árum framkvæmdastjóri bókaútgáfu Menningar- og fræðslusambands alþýðu sem átti miklu gengi og vinsældum að fagna um áraraðir. Hann lét þýða ýmsar perlur heimsbókmenntanna á íslensku og sá til þess að þær væru á boðstólum um allt land en ekki aðeins í Reykjavík. Finnbogi Rútur var einn af stofnendum Prentsmiðjunnar Odda, ásamt nokkrum ungum prenturum í Ísafoldarprentsmiðju. Hann átti sæti í útvarpsráði 1939-1945, í stjórn Byggingasjóðs kaupstaða og kauptúna og Byggingasjóðs verkamanna 1957-1967. Hulda Dóra og Finnbogi Rútur giftu sig 1938 og bjuggu fyrst í Reykjavík, en fluttust að Marbakka við Fossvog 10 maí 1940 (sama dag og breskur her steig á land í Reykjavík). Þar var heimili Huldu og Finnboga til æviloka. Fyrstu árin í Fossvogi stunduðu þau búskap ásamt vinnu í Reykjavík en sneru sér síðan alfarið að öðru. Þau eignuðust fimm börn á tíu árum þau: Elínu (1937-), Gunnar (1938-), Guðrúnu (1940-), Sigrúnu (1943-) og Huldu (1947-). Fyrir átti Finnbogi Auði (1928-) með Sigríði Guðjónsdóttur. Ásamt börnum sínum brutu þau land á miðju Kársnesi og breyttu urð og grjóti í fallegt tún, sem nú er nefnt Rútstún. Þau gáfu Kópavogsbæ jarðir sínar í Kópavogi. Finnbogi Rútur var varaoddviti og oddviti Seltjarnarneshrepps, sem Fossvogur tilheyrði þá en síðar oddviti Kópavogshrepps, fyrsti bæjarstjóri 1955-1957, en þá tók Hulda Dóra við af honum til 1962 og varð fyrsta kona til að gegna því starfi á Íslandi. Finnbogi Rútur var alþingismaður 1949-63 og bankastjóri Útvegsbanka Íslands 1957-72. Hulda var formaður kvenfélags Kópavogs, formaður bygginganefndar Kópavogskirkju og formaður Fræðsluráðs Kópavogs um árabil. Finnbogi Rútur sat í ótal nefndum á vegum Alþingis, einkum þeim sem fjölluðu um utanríkismál. Þau hjónin urðu fyrstu heiðursborgarar Kópavogsbæjar. Eftir að þau létu af störfum sinntu þau hugðarefnum sínum að Marbakka. Hulda var mikil ræktunarkona en Finnbogi mjög bókelskur og átti gott safn erlendra og íslenskra bóka. Þau ferðuðust talsvert saman og heimsóttu börn og barnabörn sem bjuggu í Frakklandi og Þýskalandi. Þau áttu góða elli og voru sátt við líf sitt og störf. Barnabörnin urðu þeim mikill yndisauki og þau sóttust mjög eftir því að heimsækja afa og ömmu á Marbakka. Finnbogi Rútur lést 19. mars 1989. Hulda Dóra bjó á Marbakka til æviloka, síðustu árin í skjóli yngstu dóttur sinnar Huldu. Hún lést 31. október 1998. (Formáli frá Guðrúnu Finnbogadóttur). Sjá einnig einkaskjalasafn nr. 599, Sigríður Valdimarsdóttir. Afhending: Guðrún Finnbogadóttir afhenti Borgarskjalasafni Reykjavíkur skjalasafn Huldu Dóru Jakobsdóttur og Finnboga Rúts Valdimarssonar, 20. júlí 2016. Innihald: Bréf, einkunnir, vottorð, samningar, vegabréf, skírteini, ræður, greinar, ráðstefnur, fundir, segulbandsspólur, ljósmyndir, munir o.fl. Tími: 1913-2005. Magn: 25 öskjur.
|
Skjalaskrá |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | E-600 Hulda Dóra Jakobsdóttir (1911 - 1998) og Finnbogi Rútur Valdimarsson (1906 - 1989) |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Einstaklingar |
Útgáfuár | 2016 |
Útgefandi | Borgarskjalasafn Reykjavíkur |
Leitarorð | karl, kona, hjón, kvenfélag, prentsmiðja, stjórnmál, bréf, tækifæriskort, Kópavogur, bæjarstjórn, teikningar, ljósmyndir. |