Vissir þú að... Borgarskjalasafn Reykjavíkur varðveitir íbúaskrár og manntöl Reykjavíkur frá árunum 1801–1850 og 1906–1980. Þar er hægt að leita eftir götuheitum og finna íbúa Reykjavíkur hverju sinni eftir búsetu.
Eftir að hafa fengið að fræðast um sögu lóðarinnar og húsanna að Mjóstræti gæti vaknað upp spurningin en hvað með fólkið sem bjó þar?
Til að finna þær upplýsingar er hægt að leita til íbúaskráa Reykjavíkur að manntala Reykjavíkur, eins og þau eru gjarnan líka kölluð. Þar má finna upplýsingar um hvaða fólk bjó hvar, aldur þeirra, hjúskaparstöðu, atvinnu og trúfélag svo dæmi séu tekin. Eldri manntöl hafa þó alla jafna færri upplýsingar að geyma um íbúa en þau yngri.
Hér má sjá brot af því hvernig manntalsskráning hefur þróast í gegnum árin.
Smellið á skjalið til að stækka.
Skjal 1.1. Manntal í Reykjavík 1801.
Hér má sjá elsta manntal Reykjavíkur sem varðveitt er á Borgarskjalasafni.
- Engin eiginleg götuheiti voru skráð. Hverju húsi var gefið hlaupandi númer eins og sjá má á vinstri spássíu.
- Fyrstu ábúendur Mjóstrætis voru merkt númeri 7 í manntalinu og eru efst á síðunni.
- Manntalið í heild sinni er hægt að nálgast hér. Sjá upptalningu á bls. 4.
Skjal 1.2. Manntal í Reykjavík 1813.
Á hægri spássíu manntalsins má sjá ábúendur „Hákonarhús“.
- Í byggingarnefndarskjölunum var talað um „Hákonarbæ“ en í manntalinu 1813 var bærinn skráður sem „Hákonarhús“. Þó má ætla að um sama bæ sé að ræða en þetta sýnir að misræmis milli frumheimilda getur gætt. Á manntalinu má sjá að fleiri ábúendur eru skráðir á lóðinni.
- Það getur gefið okkur hugmynd að fleiri en eitt íbúðarhús hafi verið á lóðinni eða þá að heimilishald þessar aðila hafi verið aðskilið.
- Manntalið í heild sinni er hægt að nálgast hér. Hákonarhús er á bls. 8.
Skjal 1.3 Manntal í Reykjavík 1911
Söfnuðir íbúa bætt við.
- Í manntali árið 1910 var bætt við athugasemd um söfnuð íbúa. Dálkurinn var látinn óútfylltur við alla íbúa Reykjavíkur það ár.
- Ári síðar, í manntalinu 1911, var dálkurinn útfylltur og söfnuður hvers íbúa Reykjavíkur skráður.
- Manntalið í heild sinni má nálgast hér. Mjóstræti 10 er á bls. 24.
Skjal 1.5 Manntal í Reykjavík 1953.
Ágúst Jónsson sem nefndur er fyrstur í manntalinu yfir Mjóstræti 10 var fjórði ættliður fjölskyldu sinnar til þess að búa á Mjóstræti.
- Ágúst var húsgagnasmiður og byggði upp vinnuaðstöðu sína á heimili sínu Mjóstræti 10, en hún hafði verið áður á Vesturgötu 3.
- Manntalið má nálgast í heild sinni hér. Mjóstræti 10 er á bls. 29.
Stór hluti manntala Reykjavíkur er aðgengilegur á netinu eða frá árunum 1801–1850 og 1906–1956. Ef þig langar til þess að fletta upp í manntölum Reykjavíkur á þessum árum þá er hægt að nálgast þau hér. Manntöl eftir 1956 er hægt að nálgast á lesstofu okkar milli 13:00 og 16:00 alla virka daga á þriðju hæð Grófarhússins, Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík. Nánari upplýsingar um lesstofu okkar má sjá hér.
Til baka Manntalsspjöld