Um rannsóknarsjóð

Sjóðurinn Rannsóknarstyrkir Bjarna Benediktssonar

 

 

Hinn 26. febrúar 2008 staðfesti Ríkarður Másson, sýslumaður á Sauðárkróki, skipulagsskrá sjóðsins Rannsóknarstyrkir Bjarna Benediktssonar, sem börn Bjarna Benediktssonar og Sigríðar Björnsdóttur stofnuðu.

Markmið sjóðsins er að styrkja rannsóknir á þeim sviðum lögfræðinnar, sem snerta innviði stjórnskipunarinnar og réttaröryggi borgaranna gagnvart leyfisvaldi og eftirliti stjórnvalda. Styrkir á sviði hag- og stjórnmálasögu 20. aldar til okkar daga skulu veittir til að efla rannsóknir og dýpka skilning á umbreytingum í íslensku efnahagslífi, stjórnmálum og utanríkismálum á 20. öld.

Skulu árlega veittir allt að þrír styrkir á hvoru fræðasviði, ein milljón og tveir 500 þúsund króna styrkir, það er að hámarki fjórar milljónir á ári og er markmiðið, að sjóðurinn starfi að minnsta kosti í fimm ár. Sjóðsstjórn hefur sent bréf til fyrirtækja og einstaklinga og boðið þeim að leggja sjóðnum lið með fjárframlögum.

Unnt er að veita sjóðnum fjárhagslegt lið með því að leggja fé inn á reikning hans: 0101 15 380700 kt. 470308 1090.

Stofnfundur sjóðsins var haldinn 14. febrúar 2008 og voru þar kjörnir í stjórn hans til þriggja ára: Björn Bjarnason, Hrafn Þórisson, Hörður Einarsson, Ingimundur Sigfússon og Kjartan Gunnarsson. Stofnendur tilnefndu Ólaf Nilsson, löggiltan endurskoðanda, sem endurskoðanda sjóðsins.

Stofnendur sjóðsins tilnefndu einstaklinga í úthlutunarnefndir til næstu þriggja ára.

Úthlutunarnefnd um lögfræðirannsóknir: Páll Hreinsson hæstaréttardómari, formaður, Björg Thorarensen lagaprófessor og Björn Bjarnason, ráðherra. Varamaður Ragnhildur Helgadóttir prófessor.

Úthlutunarnefnd um sagnfræðirannsóknir: Anna Agnarsdóttir prófessor í sagnfræði, formaður, Matthías Johannessen rithöfundur og Sólrún Jensdóttir sagnfræðingur. Varamaður Valur Ingimundarson prófessor.

Við fyrstu úthlutun í apríl 2008 véku þau Páll Hreinsson og Ragnhildur Helgadóttir sæti en Björg Thorarensen var í rannsóknarleyfi erlendis. Róbert R. Spanó lagaprófessor, formaður, og Gylfi Knudsen lögfræðingur úthlutuðu styrkjum til lögfræðirannsókna ásamt Birni Bjarnasyni.

Rannsóknarmiðstöð Íslands (RANNÍS) annast umsýslu styrkveitinga.

Hér birtist skipulagsskrá fyrir Rannsóknarstyrki Bjarna Benediktssonar:

SKIPULAGSSKRÁ

Rannsóknarstyrkja Bjarna Benediktssonar.

1. gr.
Heiti sjóðsins.
Sjóðurinn heitir Rannsóknarstyrkir Bjarna Benediktssonar og er sjálfseignarstofnun, sem komið er á fót til minningar um Bjarna Benediktsson fyrrverandi forsætisráðherra sem fræðimann og stjórnmálamann í tilefni af aldarafmæli hans hinn 30. apríl 2008.
2. gr.
Heimili og varnarþing.
Heimili og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík.
3. gr.
Markmið sjóðsins.
Markmið sjóðsins er að veita allt að sex rannsóknarstyrki á ári á sviði lögfræði og sagn¬fræði og afla framlaga til þeirra, en nánar tiltekið skal styrkjum þessum hagað sem hér segir:
a) Allt að þrír rannsóknarstyrkir skulu veittir árlega á sviði stjórnsýslu- og stjórn¬skipunar¬réttar, einn að fjárhæð kr. 1.000.000 og tveir að fjárhæð kr. 500.000 hvor. Þessir styrkir skulu veittir til þess að efla rannsóknir á þeim sviðum lögfræðinnar, sem snerta innviði stjórnskipunarinnar og réttaröryggi borgaranna gagnvart leyfisvaldi og eftirliti stjórnvalda.
b) Allt að þrír rannsóknarstyrkir skulu veittir árlega á sviði hag- og stjórnmálasögu 20. aldar til okkar daga, einn að fjárhæð kr. 1.000.000 og tveir að fjárhæð kr. 500.000 hvor. Þessir styrkir skulu veittir til þess að efla rannsóknir og dýpka skiln¬ing á umbreytingum í íslensku efnahagslífi, stjórnmálum og utanríkismálum á 20. öld.
Engin atvinnustarfsemi skal fara fram á vegum sjóðsins.
4. gr.
Ráðstöfun fjármuna.
Tvær úthlutunarnefndir, önnur á sviði lögfræði, hin á sviði sagnfræði, skulu annast úthlutun rannsóknarstyrkjanna. Úthlutun rannsóknarstyrkja skal byggjast á faglegu mati á gæðum rannsóknarverkefna, færni og reynslu umsækjenda við rannsóknir og aðstöðu þeirra til að sinna verkefnunum. Styrkþegi skal geta þess, að rannsóknarverkefni hans hafi hlotið Bjarna Benediktssonar-styrk í inngangi eða formála, þegar rannsóknin er birt opinberlega. Úthlutunarnefndirnar ákveða úthlutunarreglur með framangreind og önnur málefnaleg sjónarmið í huga. Berist ekki umsóknir, sem uppfylla skilyrði úthlutunar¬reglna, verður ekki úthlutað styrkjum að því sinni.
Úthlutunarnefndirnar skulu skipaðar af stjórn sjóðsins til þriggja ára í senn, í fyrsta sinn skipa stofnendur þó í nefndirnar.
5. gr.
Stofnendur.
Stofnendur eru börn Bjarna heitins Benediktssonar og eiginkonu hans Sigríðar heitinnar Björnsdóttur, sem bæði létust hinn 10. júlí 1970: Björn Bjarnason, kt. 141144-3409, Háuhlíð 14, 105 Reykjavík, Guðrún Bjarnadóttir, kt. 130646-2989, Fornhaga 25, 107 Reykja¬vík, Valgerður Bjarnadóttir, kt. 130150-2929, Skúlagötu 32, 101 Reykjavík og Anna Bjarnadóttir, kt. 180655-4689, Steinhaldenstrasse 59, Zürich, Sviss.
6. gr.
Stofnfé.
Stofnfé sjóðsins er kr. 800.000. Stofnendur hafa greitt stofnféð.
7. gr.
Stjórn sjóðsins.
Stofnendur kjósa fimm menn í stjórn sjóðsins til þriggja ára í senn, og skal kjörið fara fram undir forystu hins elsta úr hópi stofnenda. Í forföllum stofnenda koma afkomendur viðkomandi stofnanda í hans stað við val stjórnarmanna og aðrar ákvarðanir, sem stofn¬endum eru ætlaðar í skipulagsskrá þessari. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.
8. gr.
Endurskoðun reikninga sjóðsins.
Stofnendur tilnefna löggiltan endurskoðanda, sem ábyrgð skal bera á endurskoðun reikn¬inga sjóðsins.
9. gr.
Reikningsár sjóðsins.
Reikningsár sjóðsins er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert. Þó skal fyrsta reiknings¬tímabil sjóðsins vera frá stofndegi til 31. desember 2008.
10. gr.
Fjárvarsla og rekstur sjóðsins.
Stjórn sjóðsins er heimilt að fela Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) að annast rekstur og umsýslu sjóðsins, þ. á m. fjárvörslu sjóðsins, samkvæmt reglum þeirrar stofnunar um opin og fagleg vinnubrögð. Verði ekki samið við Rannís um fjárvörslu sjóðsins, mun stjórn¬in annast fjárvörsluna.
11. gr.
Breytingar á skipulagsskrá og lok sjóðsins.
Telji stjórn sjóðsins eða stofnendur rétt að breyta skipulagsskrá þessari, og á sú ákvörðun þá undir stofnendur. Hið sama gildir, ef stjórn eða stofnendur telja rétt að leggja sjóðinn niður. Ákvarðanir um þessi efni skulu teknar af meirihluta stjórnar og stofnenda, en fá þó ekki gildi nema með staðfestingu sýslumanns.
Verði sjóðurinn lagður niður, skal fjármunum, sem þá kunna að vera til í sjóðnum, ráðstafað í samræmi við tilgang hans. Skal lagadeild Háskóla Íslands og sagnfræðiskor Háskóla Íslands falið að ráðstafa fjármununum, ef það er ekki gert í ákvörðuninni um að leggja sjóðinn niður.
12. gr.
Almenn ákvæði og staðfesting skipulagsskrár.
Að því leyti sem í skipulagsskrá þessari er ekki sérstaklega kveðið um málefni sjóðsins, skulu um hann gilda almennar lagareglur um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, sjá nú lög nr. 19/1988 og reglugerð nr. 140/2008 um þetta efni.
Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Sauðárkróki á skipulagsskrá þessari.
Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.
Sýslumaðurinn á Sauðárkróki, 26. febrúar 2008.
Ríkarður Másson.
Helgi Már Ólafsson.

Skipulagsskráin í PDF formi

 

Sjá nánar:

Fréttatilkynning, 1. nóvember, 2007