Þegar Ólafur Thors lést árið 1964 varð það að samkomulagi erfingjanna að tengdasonur Ólafs, Pétur Benediktsson bankastjóri, skyldi taka við skjölum hans og varðveita þau. Pétur grófflokkaði skjölin og gekk frá þeim með það í huga að skrifa ævisögu Ólafs. Hann bætti einnig við það ýmsum heimildum, s.s. blaðaúrklippum. Pétur lést óvænt um aldur fram um mitt ár 1969. Síðan voru skjölin í vörslu eiginkonu hans Mörtu Thors og eftir lát hennar í vörslu Guðrúnar Pétursdóttur.
Skjalasafnið hefur því verið í tryggri vörslu fjölskyldunnar í 45 ár frá andláti Ólafs og má telja það einstakt. Þær systur Ólöf og Guðrún Pétursdætur voru sammála um að áríðandi væri að skrá skjölin og koma þeim til opinbers safns sem gæti varðveitt þau til frambúðar og veitt aðgang að þeim. Borgarskjalasafnið varð fyrir valinu, því það sýndi safninu mikinn áhuga og hafði nýlega tekið við safni Bjarna Benediktssonar, sem var náinn samstarfsmaður Ólafs. Einnig vó þungt að Borgarskjalasafn var tilbúið til að vista og halda við vefsíðu um Ólaf Thors sem þær systur vildu láta fylgja safninu.
Í safnið hefur verið bætt efni sem borist hefur eftir daga Ólafs. Þar má telja fjölda bréfa úr búi Kristjáns Albertssonar rithöfundar, en þeir Ólafur voru systrasynir og skrifuðust á alla tíð. Dóttursonur Ólafs og nafni hefur gefið safninu þessi bréf.
Anna Theódóra Rögnvaldsdóttir skráði skjalasafnið og raðaði í arkir og öskjur. Ákveðið var að láta upphaflega flokkun og röðun Péturs Benediktssonar halda sér. Stundum skrifaði hann athugasemdir eða skýringar á skjöl eða skjalabunka og eru þær teknar upp í skjalaskrá og vísað í "P.B.".
Guðrún Pétursdóttir skráði og raðaði hátt í 600 ljósmyndum og naut liðsinnis ættingja og vina við að greina hverjir eru á myndunum.