Ólafur Thors var stjórnandi frá upphafi starfsævi sinnar. Strax sem ungum manni voru honum falin stjórnar- og ábyrgðarstörf. Rúmlega tvítugur varð hann einn af framkvæmdastjórunum í Kveldúlfi, sem átti eftir að verða eitt umsvifamesta fyrirtæki landsins,og sinnti því jafnframt þingmennskunni þar til hann tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum 1934.
Thor Jensen og fjórir elstu synir hans, Richard, Kjartan, Ólafur og Haukur, stofnuðu hlutafélagið Kveldúlf 22. mars 1912. Tilgangur félagsins var að stunda útgerð og útflutning sjávarafurða. Á fyrsta árinu átti Kveldúlfur aðeins einn togara,en keypti og verkaði fisk af öðrum skipum. Byggð var upp saltfiskverkun í Reykjavík og nágrenni og fiskurinn fluttur út til Kaupmannahafnar til að byrja með. Fljótlega fjölgaði togurunum og umsvif öll uxu hratt. Höfuðstöðvar Kveldúlfs voru reistar við Skúlagötu árið 1914. Þar voru geymslur fyrir veiðarfæri, kol, salt, og matvæli og aðrar vistir fyrir skipin, þvotta- og þurrkhús fyrir fisk, og gríðarmikið geymslupláss fyrir verkaðan fisk. Skrifstofur félagsins voru á neðri hæð byggingarinnar.
Eftir að Ólafur sneri heim frá námi í Kaupmannahöfn varð hann einn af framkvæmdastjórum Kveldúlfs og sinnti því starfi frá 1914 til 1939, en dró mjög úr umsvifum sínum þar eftir að hann tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum 1934. Kveldúlfur h.f. var mjög umsvifamikið í íslensku atvinnulífi og varð stærsta togaraútgerðarfélag í einkaeign við norðanvert Atlantshaf á árunum milli heimsstyrjaldanna. Guðmundur Magnússon segir í bók sinni Thorsararnir: „Á velgengnisárum sínum var Kveldúlfur á ýmsan hátt ríki í ríkinu. Félagið var stærra og umsvifameira en önnur íslensk atvinnufyrirtæki. Verksvið þess var langtum víðtækara en annarra útgerðarfélaga, því það hélt ekki aðeins úti stórum flota til veiða heldur keypti fisk um land allt í miklu magni og seldi til útlanda. Þá hafði Kveldúlfur með höndum innflutning á eigin rekstrarvörum, svo sem kolum, salti og veiðarfærum, en einnig á ýmsum öðrum varningi, þar á meðal matvörum.
Á þriðja áratugnum var félagið orðið stærsti vinnuveitandi á Íslandi. Starfsfólk skipti hundruðum þegar mest var um að vera, en nákvæmar tölur eru ekki fyrir hendi. Skipverjar einir voru á tímabili 250 til 350, en starfsmenn í landi, svo sem við síldarsöltun eða saltfiskvinnslu, voru langtum fleiri. Vinnulaun sem félagið greiddi árlega á sjó og landi á þessum tíma námu háum upphæðum. Árið 1925 greiddi félagið rúma hálfa þriðju milljón króna í kaupgjald. Það ár voru heildarútgjöld ríkisins rétt um átta milljónir króna. ... Aukin umsvif fyrirtækisins útheimtu verkun afla um land allt, t.d. í Borgarnesi, Stykkishólmi, á Bíldudal, Akureyri, Seyðisfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og í Vestmannaeyjum.“[i] Einnig kom Kveldúlfur upp síldarsöltunarstöðvum við Eyjafjörð, á Jökulfjörðum og á Siglufirði.
Bræðurnir nutu sín hver með sínum hætti í umsvifamiklum rekstri fyrirtækisins. Richard og Ólafur báru meginábyrgð á rekstri Kveldúlfs á þriðja áratugnum og deildu skrifstofu í húsakynnum félagsins. Richard stjórnaði fjármálum og samskiptum við útlönd, en Ólafur var andlit félagsins út á við og málsvari þess. Haft var eftir Richard að þegar maður utan af landi kæmi til að hefja viðskipti við Kveldúlf „þá reyni ég alltaf að sjá svo um að það verði Ólafur sem talar við manninn, því manninum fer strax að þykja vænt um Ólaf – og Ólafi um manninn.“[ii]
Ólafur hóf ungur afskipti af stjórnmálum. Hann tók þátt í félagsskapnum Sjálfsstjórn árið 1916 en markmið hans var að leiða saman menn úr Sjálfstæðisflokknum (gamla) og Heimastjórnarflokknum í viðleitni til að ná samstöðu og geta haft áhrif á inntak sambandslaganna við Dani sem þá var farið að huga að. Hópurinn var ósamleitur og reyndi þar strax á hæfni Ólafs sem sáttasemjara. Þarna kynntist hann ýmsum sem síðar urðu áhrifamenn í stjórnmálum, eins og Jóni Þorlákssyni verkfræðingi og Sveini Björnssyni síðar forseta.
Jón Þorláksson bauð fram sérstakan lista í þingkosningunum 1921, og leiddi þar saman ólík öfl í anda Sjálfsstjórnar. Sjálfur var hann heimastjórnarmaður, en setti í annað sætið Einar skáld Kvaran sem verið hafði áhrifamaður meðal sjálfstæðismanna,og í þriðja sætið valdi hann ungan nýgræðing, Ólaf Thors. Guðmundur Magnússon segir greinilegt að kjósendum hafi fallið framkoma Ólafs og málflutningur: „ hann var geðþekkur og léttur í lund, afdráttarlaus, hnyttinn í tilsvörum og óþvingaðri en menn áttu að venjast af frambjóðendum úr röðum Íhaldsflokksins.“[iii] Listinn fékk nægilegt brautargengi til að Jón komst á þing.
Afskipti Ólafs af stjórnmálum á þessum tíma felast einkum í blaðagreinum sem hann skrifar um útgerðarmál og birtust nafnlausar í Vísi, og 1922 skrifar hann í Morgunblaðið greinar sem voru auðkenndar með stjörnu.
Ólafur hafði sótt fundi í Félagi botnvörpuskipaeigenda fyrir hönd föður síns frá 1916 og var kjörinn formaður félagsins 1918. Þannig var hann formlegur talsmaður togaraútgerðar í landinu frá 1918-1935.
Haustið 1925 sagði Ágúst Flygenring þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu af sér þingmennsku vegna veikinda. Efnt var til aukakosninga í ársbyrjun 1926, og þar sóttist Ólafur eftir kjöri. Hann vann afgerandi sigur með 1318 atkvæðum gegn 958 atkvæðum mótframbjóðanda síns. Þar með var þingmannsferill Ólafs hafinn og stóð næstu 38 árin til dauðadags í árslok 1964.
Stjórnmálaerillinn hafði sín áhrif á heimilislífið. Kona hans, Ingibjörg, segir að í upphafi hafi heimilið verið rólegt. „En eftir að hann fór að hafa afskipti af stjórnmálum gerbreyttust heimilishagir. Ólafur var svo áhugasamur og gekkst svo upp í störfum sínum að ekkert annað komst að. Og smám saman breyttist heimilið í eins konar stjórnmálamiðstöð í landinu, því rangt væri að segja að þar hafi einungis verið fjallað um málefni Sjálfstæðisflokksins.“[iv]
Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 1929 og var Jón Þorláksson fyrsti formaður hans. Jón baðst undan endurkjöri 1934 og var Ólafur Thors þá kjörinn formaður flokksins. Þeirri trúnaðarstöðu gegndi hann til 1961.
Birgir Kjaran segir í grein um Ólaf: „Hann taldi flokk sinn hafa verið steinrunnið íhald, þegar hann fyrst kynntist honum, og nefndi þar ýmsa til. Sumir hefðu svo jafnvel versnað með aldri, en Jón Þorláksson hefði hins vegar orðið frjálslyndari með hverju ári, hefði verið íhaldsamur ráðherra, en mjög víðsýnn og frjálslyndur borgarstjóri. Á Jóni hafði hann annars mjög miklar mætur og taldi hann óvenjulegan mann hvað varðar skarpa greind, heila lund og heiðarleika.“[v]
Eftir mikla velgengni Kveldúlfs á þriðja áratugnum dró ský fyrir sólu þegar heimskreppan skall á 1930 með miklu verðfalli á útflutningsafurðum Íslendinga. Kveldúlfur og önnur útgerðarfyrirtæki urðu óþyrmilega fyrir barðinu á þessari þróun og komust ekki hjá því að safna skuldum í bönkunum. Þátttaka Ólafs í stjórnmálum gerði Kveldúlf enn viðkvæmari fyrir gagnrýni en ella hefði verið. Andstæðingar hans færðu sér þessar aðstæður í nyt með mjög óvægnum árásum á Kveldúlf og Thorsbræður og hófu upp áætlanir um þjóðnýtingu Kveldúlfs og stórútgerðarinnar allrar.
Einn merkasti dagur í lífi Ólafs Thors sem ræðuskörungs og baráttumanns var 28. maí 1936, en þá höfðu verkalýðsfélögin boðað til útifundar þar sem átti að ræða „atvinnumálin og stöðvun Kveldúlfstogaranna.“ Ólafi var boðið að mæta á fundinn og þekktist boðið. Þarna var hann einn ræðumaður á móti nærri tug öflugustu forystumanna Alþýðuflokksins og verkalýðshreyfingarinnar. Hér var um líf eða dauða Kveldúlfs að tefla og í raun tekist á um þjóðnýtingu útgerðarinnar í landinu. Fundurinn fór öðruvísi en boðendur höfðu ætlað og daginn eftir sagði Alþýðublaðið að Ólafur hefði flutt „þá ósvífnustu og óþverralegustu ræðu, sem nokkru sinni hefur verið flutt á fundi hér í Reykjavík.“ [vi] En engum blandaðist hugur um hver fór með sigur að hólmi í þessari viðureign.
Daginn eftir skrifaði Ólafur Mörtu dóttur sinni: „ Þeir héldu að þeir hefðu mig í snöru! Ég hengdi þá. Ég hef engan slíkan sigur unnið. Ég tók af þeim fundinn, og fólkið ætlaði að éta mig á eftir, - líka á fundinum. Daginn eftir gat ég ekki gengið um göturnar fyrir hamingjuóskum og oflofi. Þann dag hefði ég geta tekið einræði í Reykjavík. Ég stóð mig vel, en ekki eins vel og fólkinu finnst. En það er þakklátt að berjast einn gegn mörgum.“[vii]
Ólafur var ekki einn um það að finnast sér hafa tekist vel upp. Einar Olgeirsson einn forystumanna sósíalista minntist Ólafs látins með þessum orðum: „Vígfimastan man ég hann frá fundi í Barnaskólaportinu 1936, er hann mætti einn öllum aðalleiðtogum Alþýðuflokksins. Hann var þá meistari í þeim skylmingaleik ræðuhalda er þar var háður.“[viii]
Eitt helsta baráttumál Ólafs Thors var sjálfstæðismálið, - um það hvernig aðskilnaði Íslands og Danmerkur skyldi háttað. Sem ungur maður tók hann þátt í starfi Sjálfsstjórnar og milli 1937 og 1942 átti hann sæti í dansk-íslensku ráðgjafanefndinni sem sinnti ýmsum viðkvæmum málum varðandi samband landanna tveggja.
Þegar Danmörk var hernumin í seinni heimsstyrjöldinni vorið 1940 gerbreyttust forsendur fyrir konungssambandi Íslands og Danmerkur. Menn greindi á um það hvort Ísland ætti að slíta sambandinu við Dani tafarlaust, eða bíða þess að stríðinu lyki og þjóðirnar gætu útkljáð sín mál á jafnréttisgrundvelli. Ólafur og fylgismenn hans voru hraðskilnaðarmenn og töldu brýnt að koma í veg fyrir að Ísland yrði bitbein í mögulegum friðarsamningum stórveldanna að loknu stríði.
Þegar Ólafur varð forsætisráðherra í minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins 1942 var eitt meginviðfangsefni stjórnarinnar að vinna að tafarlausum og skilyrðislausum aðskilnaði konungssambandsins milli Íslands og Danmerkur og stofnun sjálfstæðs íslensks lýðveldis. Þessar fyrirætlanir náðu ekki fram að ganga því Bretar og Bandaríkjamenn kröfðust þess að Sambandslagasamningnum frá 1918 yrði framfylgt samkvæmt bókstafnum. Því varð að bíða með sambandsslitin til 1944 þegar Ísland gat samkvæmt ákvæðum samningsins einhliða lýst yfir sjálfstæði.
Eftir að ríkisstjórn Ólafs Thors sagði af sér í desember 1942 reyndust þingflokkarnir ófærir um að mynda ríkisstjórn. Sveinn Björnsson ríkisstjóri skipaði þá ríkisstjórn mönnum sem ekki áttu sæti á þingi. Ólafi sveið það mjög og taldi það hættulegt þingræðinu að þingið gæti ekki náð samkomulagi um myndun ríkisstjórnar. Utanþingsstjórnin var við völd þann 17. júní 1944 þegar lýðveldið var stofnað á Þingvöllum að viðstöddum 40.000 manns.
Strax í kjölfar þessara miklu hátíðarhalda greip Ólafur Thors til úrræðis sem var bæði óvænt og mörgum samflokksmanna hans óásættanlegt: hann myndaði ríkisstjórn með Alþýðuflokknum og Sósíalistaflokknum. Með þessu var slegið á hina hatrömmu stéttapólitík kreppuáranna og látið reyna á eitt áhrifamesta slagorð Sjálfstæðisflokksins um stéttasamvinnu í stað stéttabaráttu með orðunum „Stétt með stétt“. Þessi stjórn, Nýsköpunarstjórnin, beitti sér fyrir endurnýjun atvinnutækja til lands og sjávar og varði til þess þeim gjaldeyrisforða sem safnast hafði á stríðsárunum. Hún ákvað að lögfesta fullkomið kerfi almannatrygginga og bylti menntakerfinu þannig, að mun stærri hluti þjóðarinnar fékk aðgang að framhaldsmenntun en verið hafði. Ólafi þótti mjög vænt um Nýsköpunarstjórnina og hún naut almennt vinsælda og jók fylgi sitt í kosningunum 1946.
Í minningarorðum að Ólafi Thors látnum sagði Einar Olgeirsson forystumaður sósíalista, um Nýsköpunarstjórnina: „En þegar verkalýðshreyfingin reis upp og braut blað í Íslandssögunni með sigrum sínum 1942, þá var það Ólafur Thors sem fyrstur allra borgaralegu forystumannanna áttaði sig á því, sem var að gerast í þjóðlífinu, og tók höndum saman við verkalýðshreyfinguna 1944 til þess að skapa með henni úr því Íslandi eymdar og kreppu, er áður var, það bjargálna þjóðfélag, er við búum við í dag. Til slíks þurfti eigi aðeins svo hugumstóran mann, sem Ólafur Thors þá reyndist, heldur og svo andlega frjálsan af bannhelgi boðorða stéttar sinnar, að hann hikaði ekki við að taka upp nýja stefnu á fjölmörgum sviðum. Það þurfti að fórna mörgum „heilögum kúm“ gamaldags íhaldsmennsku.
En Ólaf Thors brast ekki kjark til þess að taka upp sem stefnu stjórnar sinnar: áætlunarráð um þróun íslensks þjóðarbúskapar, koma á víðfeðmu almannatryggingarkerfi í þjóðfélaginu, setja upp víðtækan opinberan rekstur útgerðar, leiða í lög hina róttækustu íbúðabyggingalöggjöf, sem Ísland hefur þekkt, og semja við verkalýðssamtökin um það hátt kaup að hærra hefur raunkaup dagvinnu eigi orðið síðan, né heldur til þess að framkvæma allt þetta, að taka höndum saman við þá menn, er bannfærðir höfðu verið á Alþingi nokkru áður..... Í því sem gerðist í september og október 1944 reis Ólafur Thors hæst sem stjórnmálaleiðtogi að snilli og dirfsku...... Afrek Ólafs 1944 er í ætt við það, sem Þorgeir Ljósvetningagoði vann árið 1000. Grundvöllur var lagður að þjóðfélagi á hærra stigi lífskjara en áður. Það var sannað að hinar andstæðu stéttir Íslendinga gátu tekið saman höndum, er mikið lá við. Sundrungu nýrrar Sturlungaaldar, er tortímt hefði nýfengnu sjálfstæði lýðveldisins var afstýrt. Þjóðinni var gefið sjálfstraust, sem ei varð af henni tekið.“[ix]
Eftir hernám Íslands í síðari heimsstyrjöldinni leystu Bandaríkjamenn Breta af hólmi og hétu því að flytja her sinn brott þegar að lokinni heimsstyrjöldinni. Þegar til kom fóru þeir fram á að halda hér þremur herstöðvum til langs tíma. Ólafur Thors féllst ekki á það, en kom þeirri málamiðlun fram, að herinn hyrfi af landinu innan hálfs árs, en Bandaríkjamenn fengju að nota Keflavíkurflugvöll með fámennu starfsliði meðan Þýskaland væri enn hernumið. Keflavíkursamningurinn kostaði hins vegar Nýsköpunarstjórnina lífið, því kommúnistarnir í Sósíalistaflokknum gátu ekki fellt sig við neina málamiðlun. Stjórnin sprakk því í október 1946 og voru það Ólafi sár vonbrigði. Langvinn stjórnarkreppa fylgdi og sat Nýsköpunarstjórnin áfram í rúma 90 daga, fram í janúar 1947.
Eftir Nýsköpunarstjórnina tók við stjórn undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánssonar, sem byggðist á samstöðu svokallaðra lýðræðisflokka í utanríkismálum. Ólafur kaus að taka ekki sæti í þeirri stjórn og var því utan stjórnar þegar aðild að Atlantshafsbandalaginu komst á dagskrá veturinn 1948-9. Það kom því í hlut Bjarna Benediktssonar, sem fór með utanríkismálin, að bera hitann og þungann í þessu máli. En Ólafur lét sig málið miklu varða og færði rök fyrir því að friður og öryggi ekki aðeins Íslands, heldur einnig nágrannaþjóðanna, væru háð því að Ísland axlaði sína ábyrgð og tæki þátt í varnarsamstarfi vestrænna þjóða. Um þetta segir Guðmundur Magnússon: „Hann [Ólafur Thors] gerðist eindreginn málsvari og forgöngumaður aukins samstarfs um varnir og viðskipti við Bandaríkin og önnur vestræn lýðræðisríki og sætti fyrir það harðari og gífuryrtari pólitískum árásum, einkum frá sósíalistum, en nokkru sinni fyrr.“[x]
Annað megináhugamál Ólafs Thors var útfærsla fiskveiðilögsögunnar. Danir höfðu gert samning við Breta árið 1901 um viðurkenningu á bresku hefðinni fyrir alþjóðlegri þriggja mílna lögsögu. Sá samningur var til fimmtíu ára og strax á árum Nýsköpunarstjórnarinnar hóf Ólafur Thors undirbúning að sókn Íslands eftir að samningurinn rynni út. Hann réði Hans G. Andersen þjóðréttarfræðing til þess að undirbúa lagafrumvarp um vísindalega stjórn fiskveiða. Það var samþykkt á Alþingi 1949 og lagði grunninn að allri síðari útfærslu fiskveiðilögsögunnar með einfaldri reglugerðarbreytingu sjávarútvegsráðherra á hverjum tíma. 1951 unnu Norðmenn sigur fyrir Alþjóðadómstólnum í deilumáli sínu við Breta um útfærslu norsku fiskveiðilögsögunnar í 4 mílur út frá grunnlínupunktum.
Ólafur Thors var sjávarútvegsráðherra og notaði tækifærið fyrir samskonar útfærslu og nú hafði verið viðurkennd að alþjóðalögum. Árið 1952 var hin íslenska fiskveiðilögsaga færð út í 4 mílur frá grunnlínupunktum og fjörðum og flóum þar með lokað. Þótt þessi aðgerð væri virt að alþjóðalögum, mætti hún mikilli andstöðu Breta, sem settu löndunarbann á íslenskar fiskafurðir. Áratug síðar, í forsætisráðherratíð Ólafs Thors árið 1962, var leyst með samningum deilan við Breta um útfærslu fiskveiðilögsögunnar úr fjórum í 12 mílur.
Um miðja öldina var mjög flókið kerfi gengisskráningar og viðskiptahafta við lýði. Um tíma voru um 80 mismunandi gengi krónunnar í notkun samtímis, eftir því hvaða fisktegund var um að ræða og með hvaða veiðarfærum hún var veidd. Ólafur trúði því að frelsi í viðskiptum og rétt gengisskráning krónunnar væru forsendur heilbrigðs efnahagslífs og beitti sér ítrekað fyrir því á sjötta áratugnum við litlar undirtektir annarra stjórnmálaflokka, einkum þeirra sem trúðu því að um íslenskt efnahagslíf giltu ekki almenn hagfræðilögmál, heldur yrði að handstýra því. Það var ekki fyrr en í síðasta ráðuneyti Ólafs Thors, Viðreisnarstjórninni, sem þingmeirihluti náðist fyrir stefnu í þessa veru.
Á fyrsta kjörtímabilinu var lagður traustur grundvöllur fyrir samstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem entist í þrjú kjörtímabil, frá 1959 til 1971. Viðreisnarstjórnin umbylti hagkerfinu með því að draga úr ríkisafskiptum og koma á auknu frjálsræði í viðskiptum, einkum varðandi innflutning. Viðreisnarstjórnin taldi einnig nauðsynlegt að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf og innleiddi fyrstu stóriðjuframkvæmdirnar hér á landi með samningum um álverksmiðjuna í Straumsvík og fyrstu virkjanirnar í Þjórsá í tengslum við hana.
Þegar Viðreisnarstjórnin tók við völdum var Ólafur að nálgast sjötugt og hinn mikli erill farinn að reyna á, enda hafði hann aldrei verið heilsuhraustur. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1961 baðst Ólafur undan endurkjöri og tók Bjarni Benediktsson við formennsku flokksins. Bjarni hafði verið varaformaður frá því Pétur Magnússon féll frá 1948. Þeir Ólafur höfðu verið mjög nánir samstarfsmenn og góðir vinir í áratugi.
Nú fór heilsu Ólafs hrakandi og baðst hann lausnar sem forsætisráðherra síðla árs 1963. Bjarni Benediktsson tók við forsætisráðherraembættinu en Ólafur hélt áfram þingmennsku árið sem hann átti ólifað. Hann lést á gamlársdag 1964.
Útför Ólafs Thors var gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík 5. janúar 1965. Sr. Bjarni Jónsson jarðsöng og er ræða hans birt hér á vefsíðunni ásamt fjölda eftirmæla sem birtust í dagblöðum í byrjun janúar 1965 og í sérblaði Morgunblaðsins 19.janúar 1992, þegar Ólafur Thors hefði orðið hundrað ára.
Eftirmælin um Ólaf Thors sýna heillandi, hreinskiptinn og hugrakkan mann, með skýra sýn á menn og málefni. Hann var drengskaparmaður, mikill mannasættir, sem kunni vel að hlusta og náði einlægu sambandi við þá sem hann átti samskipti við. Þrátt fyrir léttleika og gáskafulla framkomu var hann alvörumaður sem bar skyldur sínar af mikilli ábyrgð. Eftirtektarvert er hversu vel pólitískir andstæðingar bera Ólafi Thors söguna – ekki síður en samherjar hans. Einn af pólitískum höfuðandstæðingum hans, Einar Olgeirsson, kallar Ólaf „einn af gæfumönnum Íslandssögunnar“ og segir þá hafa bundist ævilöngum vináttuböndum – og að það sama hafi átt við um samband Ólafs Thors við annan forvígismann sósíalista, Brynjólf Bjarnason.
Ólafur Thors var í forystusveit þjóðarinnar á mótunarskeiði lýðveldisins og gerði sér grein fyrir mikilvægi hvers skrefs á þeirri þroskabraut. Öllu skipti að Ísland öðlaðist fullt sjálfstæði og skipaði sér í sveit með vestrænum lýðræðisþjóðum, að þjóðin réði auðlindum sínum og færi með þær af skynsemi, að heilbrigðis-, trygginga- og menntakerfi landsins stæðist samanburð við það sem best gerðist meðal nágrannaþjóðanna, og að íslenska þjóðin axlaði ábyrgð og gerði ekki út á smæð sína, heldur aflaði sér samstöðu og virðingar annarra þrátt fyrir að vera smáþjóð.
Kannski var eitt mesta afrek Ólafs Thors að takast að halda einingu í svo stórum og margþættum flokki sem Sjálfstæðisflokknum í nær þrjátíu ár. Undir hans forystu tókst að leiða saman bæði launþega og atvinnurekendur þannig að flokkurinn varð næststærsti launþegaflokkur landsins. Og undir hans stjórnarforystu tókst einnig að stilla saman krafta verkalýðs, atvinnurekenda og ríkisvalds.
Einn af forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar komst svo að orði í minningargrein um Ólaf Thors: „Frá mínum bæjardyrum séð orkar það ekki tvímælis að það voru fyrst og fremst vinsældir Ólafs og traust fólksins á drengskap hans og réttætiskennd, sem öfluðu Sjálfstæðisflokknum fylgis langt inn í raðir launþegasamtakanna. Ólafur Thors var sérstæður persónuleiki sem seint líður þeim úr minni sem kynntust honum. Hann var mikill bjartsýnismaður og trúði á mátt og þrek þjóðarinnar til að standa af sér öll áföll og sigrast á öllum erfiðleikum. Óeining og stéttastríð var eitur í hans beinum. Þreyttist hann aldrei á að vara þjóðina við því.“[xi]
Matthías Johannessen hefur eftir Bjarna Benediktssyni: „Það var ekki einasta hamingja Ólafs Thors að hann skyldi vera kallaður til forystu, heldur einnig gæfa íslensku þjóðarinnar, að svo skyldi hafa farið: að úr hópi helstu framkvæmdamanna landsins skyldi- með fullu trausti þeirra – koma maður svo víðsýnn, frjálshuga og skilningsgóður á hag þeirra lakast settu, og einbeittur í að bæta kjör þeirra.“[xii] Þegar litið er yfir lífshlaup Ólafs Thors kemur þetta ekki á óvart. Hann þekkti fátækt af eigin raun frá æskuárum sínum og var alinn upp af foreldrum sem höfðu hafist úr bláfátækt í æsku til mikilla efna. Honum var í blóð borin samúð og skilningur á mismunandi aðstæðum fólks, sem gerðu honum ljóst að það er ekki nóg að skapa mönnum svigrúm til athafna, heldur þarf samfélagið líka að tryggja hverjum og einum lágmarksöryggi. Þetta mótaði grundvallar lífsýn Ólafs Thors og á þeim grunni vann Sjálfstæðisflokkurinn í forystutíð hans.
[i] Guðmundur Magnússon, Thorsararnir, Almenna Bókafélagið 2005:bls 129
[ii] Guðmundur Magnússon, Thorsararnir, Almenna Bókafélagið 2005:bls 132
[iii] Guðmundur Magnússon, Thorsararnir, Almenna Bókafélagið 2005:bls 178
[iv] Matthías Johannessen, Ólafur Thors Ævi og störf: I bls 63, Almenna Bókafélagið 1981
[v] Matthías Johannessen, Ólafur Thors Ævi og störf: I bls 74, Almenna Bókafélagið 1981
[vi] Guðmundur Magnússon, Thorsararnir, Almenna Bókafélagið 2005:bls 226
[vii] Ólafur Thors bréf til Mörtu Thors hvítasunnudag 1936
[viii] Einar Olgeirsson, Minningarorð um Ólaf Thors, Þjóðviljinn 5. janúar 1965
[ix] Einar Olgeirsson, Minningarorð um Ólaf Thors, Þjóðviljinn 5. janúar 1965 og Morgunblaðið 19. janúar 1992
[x] Guðmundur Magnússon, Thorsararnir, Almenna Bókafélagið 2005:bls 278
[xi] Friðleifur Í. Friðriksson, Minningargrein um Ólaf Thors, Morgunblaðið 5. janúar 1965
[xii] Matthías Johannessen, Ólafur Thors Ævi og störf: I bls 410, Almenna Bókafélagið 1981