Gamall haus


Brautin – Bindinisfélag ökumanna, BFÖ

 

 

Einkaskjalasafn nr. 574

 

 

 

Brautin – Bindinisfélag ökumanna,

BFÖ

 

 

Formáli

 

Tilurð Brautarinnar- bindindisfélags ökumanna (B.F.Ö.) eins og félagið var kallað fyrstu 50 árin er sprottin úr norrænu bindindishreyfingunni, en hliðstæð samtök störfuðu í Noregi og Svíþjóð. Fljótlega eftir að fyrsti bíllinn leit dagsins ljós fór að bera á slysum tengdum ölvunarakstri. Það varð kveikjan að stofnun bræðrafélaga B.F.Ö. á Norðurlöndum á þriðja áratug 20. Aldar. Sænsk tryggingafélög gerðu rannsóknir sem sýndu að bindindismenn ollu færri óhöppum í umferð og það varð kveikjan að sænska tryggingafélaginu Ansvar.

Stofnfundur B.F.Ö. var haldinn þriðjudaginn 29. september 1953 að Skuggasundi 3 (Edduhúsinu) í Reykjavík. Á fundinn mættu 12 manns sem skráðir voru formlegir stofnendur B.F.Ö. en á fyrsta stjórnarfundi B.F.Ö. sem haldinn var 4. október það ár var ákveðið að telja sem stofnfélaga alla þá sem höfðu komið að undirbúningi að stofnun B.F.Ö., þannig að stofnfélagar voru samtals 20 talsins.

 

Markmið félagsins var strax þá að bæta umferðaröryggi, meðal annars með því að neyta ekki áfengra drykkja, að aka á ábyrgan hátt og einnig lögð áhersla á ýmsa fræðslustarfsemi.

Saga B.F.Ö. (Brautarinnar) hefur einkenni af sögu brautryðjandans. Samstarf B.F.Ö. við bræðrafélög á hinum Norðurlöndunum hefur verið B.F.Ö. mikill styrkur og oftar en ekki aflgjafi nýrra hugmynda. Þess má geta að systrafélög B.F.Ö. í Svíþjóð og Noregi söfnuðu umtalsverðum upphæðum til handa þeim sem lentu illa í Vestmannaeyjagosinu. Í fyrstu var áherslunum beint að því að efla hag þeirra ökumanna sem voru bindindismenn. Hámarki náði það starf þegar B.F.Ö. ásamt fleiri bindindissamtökum og sænska tryggingafélagið Ansvar stofnuðu tryggingafélagið Ábyrgð hf. sem bauð bindindismönnum tryggingar gegn lægra iðgjaldi en áður þekktist. Stofnun Ábyrgðar gaf B.F.Ö. aukinn þrótt og vægi við að vekja athygli á helsta baráttumáli sínu í gegnum tíðina, því að áfengi og akstur fari undir engum kringumstæðum saman. Félagið hefur alla tíð haft þá skoðun að ekki ætti að heimila fólki akstur ökutækis ef nokkurt magn vínanda væri mælanlegt í blóði þess. Félagið vakti athygli á því árið 1961 að bjóða upp á óáfenga drykki á veitingahúsum og var gert átak í að heimsækja þau. Árangurinn var að mörg þeirra fóru að bjóða upp á þann valkost.

 

Liður í útbreiðslustarfi B.F.Ö. var skipulagning keppni í góðakstri víða um land en nýtt fyrirkomulag að norskri fyrirmynd, svokölluð ökuleikni var tekið upp árið 1977. Sigurvegarar tóku um árabil þátt í sambærilegri keppni erlendis og stóðu sig vel. Fjórum sinnum urðu Íslendingar Norðurlandameistarar í Ökuleikni á árunum 1978-1984. Þannig varð B.F.Ö. brautryðjandi í keppni í akstursíþróttum sem nú eru stundaðar af fjölmörgum ökumönnum og lengi vel var ökuleiknin fjölmennasta keppnin í akstursíþróttum hér á landi. Í dag hefur hún þróast í að nýtast m.a. fyrirtækjum í þeirra starfi við  að auka vitund ökumanna í umferðinni. Íslandsmeistarakeppni í trukka- og rútuökuleikni ásamt ökuleikni á fólksbílum verður haldin helgina 5.-6. október. Félagið hefur átt sæti í Umferðarráði frá stofnun þess 1969. Fullyrða má að B.F.Ö. hafi um margt verið brautryðjandi í umferðaröryggismálum. Sem dæmi má nefna að á ársþingi B.F.Ö. árið 1971 voru samþykktar ýmsar ályktanir í umferðaröryggismálum. Sú fyrsta gefur vel til kynna hve framsýnir og stórumhuga félagsmenn voru á þessum tíma en hún hljóðar svo: “Að sjá til þess að ýmiss öryggisbúnaður, sem sé rúðusprautur, slökkvitæki, sjúkrakassar, viðvörunarljós (tengd stefnuljósum), glitþríhyrningar, hnakkapúðar og öryggisbelti verði lögskipaður búnaður í hverjum bíl.” Þessi ályktun er samþykkt ítrekað á næstu ársþingum og smátt og smátt opnast augu stjórnvalda sem fara með umferðarmál og Alþingis fyrir mikilvægi þessa. Á stjórnarfundi B.F.Ö. í febrúar 1975 var tekið fyrir erindi frá Umferðarráði þar sem leitað var álits B.F.Ö. á lögleiðingu bílbelta. Stjórnin mælti með lögleiðingu og taldi slíkt einu raunhæfu aðgerðina til þess að tryggja notkun þeirra. Á sambandsþingi 1977 var rekið á eftir því að notkun bílbelta yrði fest í lög. Eftir að notkun öryggisbelta í framsætum var lögfest var  sjónum beint að öryggi farþega í aftursætum. Á sambandsþingi 1981 var skorað á Umferðarráð að hefja markvissan áróður fyrir notkun öryggisbelta í aftursætum. Þetta sjónarmið var ítrekað síðar allt til þess að það ákvæði var fest í lög. Notkun ökuljósa er annað dæmi um árvekni B.F.Ö. hvað varðar öryggisbúnað bíla. Á. Sambandsþingi 1981 var samþykkt ályktun um

lögbindingu notkunar ökuljósa allan sólarhringinn frá 1. október til 31. mars. Á sambandsþingi 1983 var samþykkt áskorun til dómsmálaráðherra um að beita sér fyrir því að lögleidd verði notkun ökuljósa allt árið. Á áður nefndu sambandsþingi 1971 var einnig samþykkt ályktun til lögregluyfirvalda og þau hvött til að taka til athugunar að taka upp blá ljós í stað rauðra og taka upp ba-bú hljóðmerki í stað sírena.

 

Önnur dæmi um árvekni BFÖ í umferðaröryggismálum má nefna hvatningu til stjórnvalda um lögleiðingu á handfrjálsum búnaði fyrir farsíma, leyfa hjólreiðar á gangstígum og notkun nagladekkja yfir vetrarmánuðina. Þá hvatti B.F.Ö. stjórnvöld strax árið 1964 til lækkun prómillmarka úr 0,5 niður í 0,2 prómill. Þá var strax ljóst að mörkin væru of há. Árið 1967 beitti félagið sér fyrir að komið yrði á ökuferilsskrá fyrir fyrsta árs ökumenn. Þá var þegar ljóst að tjónatíðni óreyndra ökumanna var mun meiri og hvatti félagið til bættrar og aukinnar ökukennslu sem tæki á þessu vandamáli. Félagið skoraði á ríkisstjórn árið 1971 að lögleiða veltigrindur á dráttarvélar og að komið yrði á reglubundinni skoðun á þeim. Árið 1979 hóf félagið að vinna markvisst að hjólreiðafræðslu, m.a. með stofnun klúbba. Sama má segja um vélhjólafræðslu. Stofnaðir voru vélhjólaklúbbar á 6 stöðum á landinu þar sem fræðsla, verkleg kennsla í akstri og viðhaldi hjóla og léttar keppnir voru haldnar. Árið 2001 fór B.F.Ö. af stað með átakið Akstur krefst athygli í samvinnu við Umferðarstofu og nokkur fyrirtæki. Því var jafnt beitt til atvinnubílstjóra sem og námskeið haldin meðal ungra ökumanna um land allt, þar sem veltibíllinn, go-kart bílar félagsins voru notaðir til að gera fræðsluna áhrifameiri, enda hefur félagið lengi talið að besta aðferðin við fræðsluna væri „að læra með því að gera“.

Blaðaútgáfa hefur verið mikilvægur liður í starfsemi B.F.Ö. Árið 1958 hleypti félagið af stokkunum fyrsta félagsriti sínu, Umferð, sem jafnframt var tímarit umumferðarmál. Það rit kom út til ársins 1965. Árið 1962 hófst útgáfa á öðru riti, Brautin, en útgáfa þess varaði í tvö ár. Árið 1966 kom út fyrsta tölublað B.F.Ö.-.blaðsins sem kom út fram til ársins 2005 að undanskyldum árunum 1969-1975. Um miðjan 9. áratuginn varð talsverð áherslubreyting á efni blaðsins. Umfjöllun um bíla og tækninýjungar í bílum féll að mestu niður en aukin áhersla var lögð á umferðarmál og bindindismál í heild. Mikið var fjallað um lífsvenjur fólks og lífsviðhorf. Bindindi var skipað í flokk með heilbrigðum lífsvenjum ásamt hollu mataræði og líkamsþjálfun. Blaðið gerðist talsmaður óáfengra drykkja og birti af og til uppskriftir óáfengra hátíðardrykkja til neyslu í stað áfengra. Þá fékk umfjöllun um ölvunarakstur aukið rými. Á árunum 1989-1993 voru birt stutt viðtöl viðvið þjóðþekkta Íslendinga úr ýmsum þjóðfélagshópum sem lýsa afstöðu sinni til áfengismála og áfengisvarna. Árið 2000 opnaði félagið heimasíðu, http://www.brautin.is/ þar sem er að finna greinar og ýmsan fróðleik um þau mál sem félaginu eru umhuguð. Árið 1994 fékk B.F.Ö. veltibíl frá Færeyjum lánaðan til landsins til að vekja athygli á mikilvægi notkunar bílbelta. Fékk félagið Umferðarráð til liðs við sig í því verkefni. Árangur þess verkefnis var svo góð að ákveðið var að smíða veltibíl. Umferðarráð var samstarfsaðili og leitað var til Heklu sem gaf nýjan VW Golf í verkefnið með góðum stuðningi VW verksmiðjanna. Síðan hefur veltibíllinn verið endurnýjaður þrisvar og alltaf Hekla látið félagið fá nýjan VW Golf til verkefnisins. Samstarfið við Heklu hefur verið farsælt og eru Veltibíllinn og Ökuleiknin dæmi um það. Í fólksbílakeppnum keppa t.d. allir á VW frá Heklu. Haft hefur verið eftir Umferðarstofu að Veltibíllinn hafi verið það tæki sem best hefur nýst í baráttunni fyrir aukinni notkun bílbelta. Hann hefur mikið verið notaður til að heimsækja skóla og við ýmsar uppákomur. Í dag er veltibíll orðinn hluti af skyldunámi í Ökuskóla 3. Ýmis verkefni s.s. ölvunarátaksverkefni, bílbeltaátaksverkefni, fræðsla til ungra ökumanna eru og hafa verið í gangi og mjög oft í samstarfi við lögreglu, Landsbjörgu, Umferðarstofu (nú Samgöngustofu) og fleiri aðila. Í dag er markmið félagsins óbreytt, að stuðla að bættri umferðarmenningu og vímuefnalausum akstri.

 (Heimild: http://www.brautin.is/brautin/saga-felagsins/)

 

Afhending: Sigurður Ingimundarson afhenti Borgarskjalasafni Reykjavíkur skjalasafn Brautarinnar- bindisfélags ökumanna 15. september 2015.

Tími: 1953-1993.

Innihald: Fundargerðir, lög félagsins, afmælisblað o.fl.

 

 

 

Skjalaskrá

 

 

 

Örk 1

Bréfa- og málasafn, fundargerðabækur og ljósmyndir

Fremst í örkinni er listi sem fylgdi með safninu.

 

Fundargerðabók. Reykjavíkurdeild B.F.Ö., fundargerðir frá 28. febrúar 1960 til 15. nóvember 1965. Aftast í bókinni eru: Skýrsla stjórnar, líklega 28. febrúar 1964. Bréf til Bindindisfélags ökumanna frá Reykjavíkurdeild B.F.Ö., 9. júní 1964, afrit. Bréf frá Bindindisfélagi ökumanna til deildarmanns,

26. maí 1964. Fundarboð 1. mars, án árs og 11. mars, án árs.

 

Fundargerðabók. Bindindisfélag ökumanna Siglufjarðardeild, 8. desember 1965 til 19. mars 1969.

 

Bindindisfélag ökumanna, félagslög, 24. júní 1957, 2 eintök.

Skýrsla framkvæmdastjóra B.F.Ö. á sambandsþini, 19. september 1959.

Skýrsla framkvæmdastjóra B.F.Ö., á sambandsþingi, 19. september 1961.

Bréf frá B.F.Ö. til félagsmanna, án árs.

Bindindis- og umferðarmálasýning í júní 1962.

Bindindis- og umferðarmálasýning í júlí 1964, 2 eintök.

Félagsskírteini.

Umsóknarblað um inngöngu í B.F.Ö.

Prúðmennið við stýrið, kynningarbæklingur, án árs, 5 eintök.

Bæklingur um ölvunarakstur, gefinn út af Áfengisráði og Umferðarráði, án árs.

Brautin. Félagsrit Bindindisfélags ökumanna, 1. árgangur, 1. nóvember 1962.

Pétur Sigurðsson. Fátækir menn í alls næktum, útvarpserindi 17. október 1963.

Bindindisfélag ökumanna 1953-1993. Samtök um öryggi í umferð, afmælisrit, 2 eintök.

 

 

Ljósmyndir

 

Umslag 1

Mynd. Fyrsta stjórn Bindindisfélags ökumanna kjörin á stofnfundi 29. september 1953. Talið frá vinstri: Benedikt Bjarklind lögfræðingur, Jens Hólmgeirsson fulltrúi, Ásbjörn Stefánsson læknir (ritari), Sigurgeir Albertsson trésmíðameistari (formaður), Halldór Þórhallsson strætisvagnabílstjóri (varaformaður), Guðjón Guðlaugsson trésmíðameistari (gjaldkeri) og Eiríkur Sæmundsson heildsali.

 

Umslag 2

Mynd. Steinar Hauge lét sér alla tíð annt um B.F.Ö. og er eini útlendingurinn sem B.F.Ö. hefur kjörið heiðursféaga. Helgi Hannesson er til vinstri á myndinni en Steinar Hauge til hægri, án árs.

 

 

Umslag 3

Mynd. Fyrsta stjórn og varastjórn B.F.Ö. sem kosin var á stofnþingi þess 24. júní 1957. Frá vinstri: Guðmundur Jensson, Helgi Hannesson, Vilhjálmur Halldórsson, Sigurgeir Albertsson (forseti), Þorvaldur Árnason, Ásbjörn Stefánsson (ritari), Óðinn S. Geirdal, Pétur Sigurðsson, Sr. Björn Björnsson og Benedikt S. Bjarklind (varaforseti). Á innfelldu myndinni er Jens Hólmgeirsson (gjaldkeri).

 

Umslag 4

Mynd. Frá sambandsþingi B.F.Ö 1977. Standandi fyrir miðju er Sveinn H. Skúlason þáverandi forseti.

 

Umslag 5

Mynd. Jóhann E. Björnsson forstjóri Ábyrgðar hf. í ræðustóli á 20 ára afmælishátíð B.F.Ö. árið 1973. Til hægri er Gunnar Þorláksson.

 

Umslag 6

Mynd. Ásbjörn Stefánsson sýnir hættur í umferðinni, án árs.

 

Umslag 7

Mynd. Henrik Klackenberg  formaður  MHF afhendir Helga Hannessyni forseta B.F.Ö. ávísun fyrir fénu sem safnaðist til aðstoðar Vestmannaeyingum 1973. Á milli þeirra er Arne Prytz aðalræðismaður Íslands í Malmö.

 

Umslag 8

Mynd. Baldvin Þ. Kristjánsson (til hægri) stofnandi klúbbanna Öruggur akstur afhendir Helga Hannessyni forseta B.F.Ö. silfurbílinn frá Samvinnutryggingum á landsfundi klúbbanna 19. apríl 1974.

 

Umslag 9

Mynd. Hópmynd. Þátttakendur í fyrsta góðakstri B.F.Ö., án árs.

 

 

Skráð í september 2015

Gréta Björg Sörensdóttir

Til baka...