Gamall haus


Gamli Landspítali - lýsing í brunabótavirðingum

Elsti hluti húsnæðis Landspítalans var tekinn í notkun árið 1930 en húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni sem þá var húsameistari ríkisins. Í upphafi voru 92 rúm á spítalanum í nokkrum sjúkrastofum. Í brunabótavirðingum Reykjavíkur má finna ýmsar upplýsingar um byggingar Landsspítalans og stærri tækjakost.

 

Mynd 1: Hér má sjá dagsetningar brunavirðinga Landspítalahússins. Elsta virðingin er frá 21.12.1930. Opna 348 úr Brunabótatryggingar húsa nr. 1631-2520.

 

Mynd 2: Opna 203 Bók 21-01-1928 til 21-06-1930 Aðfnr 744.

 

Hús ríkissjóðs, Landspítalinn við Hringbraut með þak úr borðasúð, pappa, listum og þakhellum. Byggingin er öll þrílyft með risi og kjallara. Fjögur loft úr járnbentri steinsteypu eru í stærstum hluta byggingarinnar en í hluta hennar eru loftin fimm. Kjallaragólf og skilveggir eru úr steinsteypu. Útveggir eru einangraðir að innan með korkplötum, sem yfir er lagt vírnet og er múrsléttað yfir. Gólf í eldhúsum og baðherbergjum eru flísalögð, stigar og gangar eru lagðir gúmmídúk en annarsstaðar er terrasso á gólfum. Á neðstu hæð eru 6 sambýlissjúkrastofur, 6 einbýlissjúkrastofur, tvær dagstofur, efnarannsóknarstofa, sýnaskoðunarstofa, skrifstofa, tvö fataherbergi, hjúkrunarherbergi, þrjú baðherbergi, eldtraustur skápur, læknisstofa, kandídatsherbergi, eldhús, tvö uppþvottaherbergi, áhaldastofa og kennslustofa. Herbergi fyrir sjúkrabifreið, fimm vatnssalerni, pallur, lyftuklefi, lyfjaherbergi, 12 fastir skápar, tvö anddyri og fjórir gangar.

 

Á miðhæðum eru fimm sambýlisstofur, sex einbýlisstofur, tvær dagstofur, hjúkrunarherbergi, eldhús, tvö uppþvottaherbergi, tvö baðherbergi, biðstofa, skrifstofa, skurðstofa, læknastofa, kandídatsherbergi, rannsóknarstofa, tvö umbúðaherbergi, verkfærastofa, sótthreinsunarklefi, língeymsla, lyfta, pallur fimm vatnssalerni, 26 skápar, anddyri og fjórir gangar.

 

Á efstu hæð eru fjórar sambýlissjúkrastofur, níu einbýlisstofur, þrjár fæðingarstofur, hjúkrunarstofa, tvö eldhús, tvö uppþvottaherbergi, þrjú baðherbergi, tvær línstofur, tveir pallar, lyftuklefi, tveir legupallar, tvö fataherbergi, fimm vatnssalerni, 18 skápar, tvö anddyri og átta gangar.

 

Á þaklofti eru fyrirlestrarsalur, ljósmyndastofa, bókasafnsherbergi, lestrarstofa, skjalaherbergi, safnstofa, aðgerðastofa, lyftuherbergi, fjögur geymsluherbergi og fimm gangar.

 

Í kjallara eru þrjár röntgenlækningastofur, tveir vélaklefar, tveir ?, þrír fataklefar, biðstofa, skrifstofa, tveir myrkraklefar, vélaherbergi, búr, borðstofa, tvö framreiðsluherbergi, mjólkurstofa, eldhús, fataherbergi, nuddlækningastofa, tvö læknisherbergi, tvær ljóslækningastofur, tvö geymsluherbergi, rafmagnsherbergi, miðstöðvarherbergi, eldiviðarhús, tveir kolaklefar, baðherbergi, steypubaðklefi, þrjú vatnssalerni, tveir ísklefar, lyftuklefi, sjö gangar og fimm anddyri.

 

Steinsteyputröppur eru við allar útidyr byggingarinnar en þeirra mestar eru aðalanddyratröppur spítalans.

Loftræsting í húsi þessu er mjög vönduð í húsi þessu og nær til hvers einasta herbergis þess.

Stigar eru úr steinsteypu og er allt húsið sementssléttað að utan.

 

Samanlagt brunavirðingamat hússins 21. júní 1930 var 1.149.719 kr. Útgjaldaliður fjárlaga ríkissjóðs 1930 var um 11,9 milljónir svo virði hússins var um 10% af útgjöldum ríkisins það árið en fjármunum hafði verið veitt í bygginguna úr ríkissjóði frá 1926.

 

Brunavirðing Landspítalans með ítarlegri lýsingu á byggingunni. Opna 45 úr Bók 21.07.1930 til 21.07.1933 Aðfnr. 745: .

Brunavirðing Landspítalans með ítarlegri lýsingu á byggingunni. Opna 45 úr Bók 21.07.1930 til 21.07.1933 Aðfnr. 745

 

Þvottahús Landspítalans var byggt út steinsteypu með þak úr borðasúð, pappa, listum og bárujárni. Loftið var klætt með plægðum borðum en útveggir einangraðir með korkplötum sem yfir var lagt vírnet, múrsléttað og svo voru veggirnir málaðir með olíumálningu. Húsið skiptist í þvottahús og þurrkklefa. Terrasso var á gólfi þvottahússins en línoleum dúkur á gólfi þurrkklefans. Gólf og skilveggir voru úr steinsteypu. Húsið var múrsléttað að utan. Í þvottahúsinu voru strokvélar, þvottavélar með sótthreinsunarofni og gufuketill.

Í austurálmu var kolaklefi, afgreiðsluklefi, viðgerðastofa, straumstofa, vatnssalerni, vindustofa og frágangur svipaður og í þvottahúsi nema að hluti hússins var úr járnbentri steinsteypu.

Í vesturálmu var líkskurðarstofa, rannsóknarstofa, líkhús, tvö sótthreinsunarherbergi, móttökuherbergi, aðgreiningarstofa, bleytiherbergi, tvö vatnssalerni, snyrtiklefi og gangur. Terrasso var á gólfi og línoleum dúkur.

 

Heimildir:

Árni Björnsson. 1998. Ágrip af sögu Landspítalans 1930 – 1998. Slóð: http://www.landspitali.is/um-lsh/almennar-upplysingar/sagan/landspitalinn-1930---1998-/

Ýmsar greinar af timarit.is.

 

Val skjala og textagerð:

Svanhildur Bogadóttir og Albína Hulda Pálsdóttir.

 

Ljósmyndun:

Jóhann Ólafur Kjartansson.

 

Með því að smella á hlekk hér fyrir neðan má nálgast brunabótavirðingar og teikningar af flestum húsum í Reykjavík:

Brunavirðingar 1811-1953

Brunavirðingar lýsingabækur 1954-1981

Teikningar af húsum í Reykjavík

 

Share

Til baka...