Gamall haus


Knud Zimsen boðið til fagnaðarviðhafnar og konungsveislu árið 1907

Konungur steig á land í Reykjavík árla morguns 30. júlí 1907 ásamt föruneyti sínu. Var þá bjart veður og fagurt. Var þar fyrir ráðgjafi Íslands Hannes Hafsteinn og allt stórmenni og fagnaði konungi. Var tekið á móti konungi með mikilli viðhöfn á bæjarbryggjunni. Er konungur sté fæti sínum upp á bryggjuna bauð ráðherra Íslands hann velkominn, dundu þá við skot frá herskipunum er í höfninni lágu. Smámeyjar í hvítum klæðum stóðu í röð til beggja handa er konungur gekk upp eftir bryggjunni og stráðu blómum fyrir fætur honum.

Ofan við bryggjuna hafði verið reistur sigurbogi, skrautlegur mjög; við boga þennan stóð bæjarstjórn Reykjavíkur og fagnaði bæjarfógeti í fáum orðum komu konungs. Söngflokkurinn „Kátir piltar" höfðu skipað sér þar á pall og sungu undir stjórn Brynjólfs Þorlákssonar kvæði eftir Matthías Jochumson.

Bærinn var allur prýddur sem bezt og götur þær, er konungur gekk ásamt ráðherra Íslands um til bústaðar þess, er honum var ætlaður. Mannfjöldinn fylgdi á eftir þeim og öll leiðin var fánum skreytt á báðar hendur. Fagnaðaróp gullu við um bæ allan, er konungur gekk um og lið hans. Konungur gisti í Menntaskólanum í Reykjavík en fylgdarlið hans á Hótel Reykjavík og Hótel Íslandi. Menntaskólinn hafði verið endurbættur að miklu og vel frá öllu gengið. Þegar konungur kom að Menntaskólanum sat þar á palli söngflokkur stór og kyrjaði upp kvæði eftir Matthías Jochumson.

Kl. 2 síðdegis var konungi veitt móttaka í alþingishúsinu við hátíðlegar viðtökur. Var þar alt sópað og prýtt og hásæti reist handa konunginum. Var þar sunginn kvæðaflokkur mikill eftir Þorstein Gíslason, en Sveinbjörn Sveinbjörnsson frá Edinborg hafði samið lagið. Geir prestur Sæmundsson var þar kominn af hinum enda landsins til að syngja sólósöngva. Hannes Hafstein ráðgjafi flutti snjalla ræðu og bað konung velkominn. Þar eftir steig konungur í stól og talaði allangt og snjallt erindi. Mælti hann með blíðu mikilli til landsmanna. Enn aðalinnihald boðskaparins var það, að það væri hans konunglegi vilji, að Íslendingar njóti frelsi til að glæða sérkenni sín og hagnyta sér gæði landsins. En þessi orð hans eru hvað eftirtektaverðust: ,,Eg hefi erft ríkið Danmörk og Ísland, sem einingu og þá einingu skal varðveita frá kyni til kyns". Að því loknu var sunginn seinni hluti drápunnar. Að lokum gekk konungur fram á Þinghússvalirnar og ávarpaði mannfjöldann úti fyrir.

 

 Konungskoman 1907

 

 Hér má sjá aðgöngu miða Knud Zimsen verkfræðings og síðar borgarstjóra að fagnaðarviðhöfn í Alþingishúsinu. Sjá má að hann hefur setið í Lestrarsalnum.

 

Um kveldið var konungi og fylgdarliði hans haldin veizla mikil í barnaskólahúsinu af stjórn og þingi. Voru þar um 250 boðsgesta. Mælti þar konungur fyrir minni  Íslands. Ræður fluttu þar og forseti alþingis, forseti ríkisþingsins og yfirráðgjafinn danski. Hátíðarljóð eftir Matthías Jochumsson voru þar sungin af söngsveit Sigfúsar Einarssonar.

 

 Boðskort vegna veislu í barnaskólahúsinu

Boðskort Knud Zimsen í middegisverð í barnaskólahúsinu þriðjudaginn 30. júlí 1907 en það var ráðherra Íslands og forsetar Alþingis sem buðu til veislunnar.

 

 

 

 

Sætaskipan í veislu til heiðurs Friðriki VIII 30. júlí 1907. Sæti Zimsen er merkt með x.

 

 

 

 

 

Menu (matseðill) fyrir veislu ráðherra Íslands og forseta Alþingis til heiður Friðriki VIII Danakonungi,

haldin í barnaskólahúsinu 30. júlí 1907. Einnig má sjá hvaða tónlist var spiluð í veislunni.

 

 ____

Byggt á heimildum af www.timarit.is, meðal annars:

Ingólfur 11. ágúst 1907 og Vínland ágúst 1907

 

Ofangreind skjöl bárust Borgarskjalasafni Reykjavíkur nýlega frá Önnu Jóhönnu Zimsen, dóttur Knud Zimsen. Varðveitt með einkaskjalasafni nr. 25 – Knud Zimsen.

 

Val skjala og textagerð:

Svanhildur Bogadóttir og Guðjón Indriðason.

 

Ljósmyndun:

Skarphéðinn Þrastarson.

 

Share

Til baka...