Gamall haus


Gay Pride í Reykjavík og Samtökin ´78

 

Um þessar mundir eru haldnir í Reykjavík Hinsegin dagar í Reykjavík og Gay Pride gleðigangan. Í dag má segja að gangan sé orðin að sigurgöngu hinsegin fólks, vina og vandamanna þeirra og landsmanna, sem flestir styðja réttindabaráttu hinsegin fólks.

 

Borgarskjalasafn Reykjavíkur varðveitir skjalasafn Samtakanna '78, sem hefur að geyma mikilvægar heimildir um mannréttindabaráttu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks á Íslandi. Í skjalasafninu eru einnig skjöl um upphaf Hinsegin daga í Reykjavík og Gay Pride gleðigöngunnar.

 

Um er að ræða skjöl einkum frá fyrstu tveimur áratugum starfseminnar, meðal annars um baráttuna fyrir jafnrétti á atvinnu- og húsnæðismarkaði. Í skjalasafninu má glöggt finna hversu hörð átökin voru á fyrstu árunum og hversu mikill árangur náðist með þrotlausri baráttu.

 

Hér er dæmi um ofangreint. Þar senda Samtökin ´78 hefðbundna beiðni um lestur auglýsingar um fund fyrir kvöldfréttir, sem verði svohljóðandi: ,, Lesbíur, hommar! Munið fundinn í kvöld. Samtökin ´78."

 

Samtökin ´78 óska eftir birtingu á auglýsingu


 

 

Sama dag berst Samtökinum svar Andrésar Björnssonar, útvarpsstjóra. Þar segir að auglýsingum skuli hafna ,,ef þær brjóti í bága við almennan smekk eða velsæmi. Á þeim grundvelli er hafnað orðunum "lesbía" og "hommi" í auglýsingu yðar."

 

Samtökin ´78 - svar útvarpsstjóra

 

 

Fyrsta ganga Samtakanna ´78 var árið 1993 og síðan 1994 en að sögn Þorvalds Kristinssonar voru það ekki Gay Pride göngur og kölluðu sig ekki svo. ,,Við vorum að vekja athygli á málstað okkar og mannréttindum en kunnum ekki fyllilega að blanda gleðinni og ærslunum inn í það mál. Lífið var bara of erfitt á þeim árum. "

 

Í bréfi samtakanna til lögreglustjóra kemur fram að í tilefni af Pay Pride Day (Frelsisdegi lesbía og homma) sem haldinn sé hátíðlegur um allan heim, sé sótt um leyfi fyrir göngu 27. júní. Áætlað sé að hún hefjist kl. 14 og að 30 manns muni taka þátt í henni þótt vonast sé til að þeir verði fleiri. Samtökin myndu ekki slá hendi á móti lögreglufylgd.

 

Í fréttatilkynningu frá Samtökunum var göngunni lýst sem skrúðgöngu homma og lesbía.

 

 

Ganga

 

 

Fyrsta gleðigangan, Gay Pride gangan var farin árið 2000 og þá mættu 5.000 manns í miðborgina. Gangan hefur verið eftir það árviss viðburður og gestum fjölgað og fjölgað. Þá hefur dagskrá Hinsegin daga efst og lengst og verður sífellt fjölbreyttari.

 

Hér fyrir neðan má sjá nokkra dagskrárbæklinga sem bárust með skjalasafni Samtakanna ´78.

 

Gay Pride bæklingar varðveittir á Borgarskjalasafni

 

Ljósmynd: Svanhildur Bogadóttir

 

Á síðasta ári 2010 er talið að 70-90.000 manns hafi tekið þátt í gögnunni og/eða dagskrá að henni lokinni og var þar um metfjölda að ræða.

 

Gay Pride í Reykjavík í ágúst 2010. Ljósmynd: Svanhildur Bogadóttir

 

Hér má sjá framvarðarsveit Gay Pride göngunnar 2010.

Ljósmynd: Svanhildur Bogadóttir.

 

 

Mannfjöldinn á Gay Pride


Hér má sjá hluta af þeim fjölda sem fylgdist með dagskrá við Arnarhól að lokinni Gleðigöngunni 2010.

Ljósmynd: Svanhildur Bogadóttir.

 

 

Á vefsíðu Hinssegin daga kemur fram að:

,, Í gleðigöngu Hinsegin daga staðfestir hinsegin fólk tilveru sína, sýnileika og gleði. Þar sameinast lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir og transfólk í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum. gleðigangan er hápunktur og stolt hátíðarinnar."

 

 

Texti: Svanhildur Bogadóttir

 

Tenglar:

http://www.gaypride.is/

http://www.samtokin78.is


 

Share

Til baka...