Gamall haus


Leiklist á kreppuárunum

 

Leikfélag Reykjavíkur var upphaflega stofnað 1897 og er því meðal elstu starfandi félagasamtaka á landinu. Innan raða félagsins voru helstu forkólfar landsins á sviði leiklistar fram að stofnun Þjóðleikhússins árið 1949 en þá voru 14 helstu leikarar og leikstjórar leikfélagsins ráðnir þangað.

Áhrifa kreppunnar miklu gætti að sjálfsögðu á Íslandi. Gúttóslagurinn árið 1932 er til merkis um það. Í bók sinni um sögu Reykjavíkur segir Guðjón Friðriksson um skemmtanalífið í Reykjavík á fjórða áratugnum:

„Þó að listalíf höfuðstaðarbúa væri í framþróun var dægradvöl þeirra þó einkum fólgin í fernu: kaffihúsum, bíóum, dansleikjum og bílferðum. Sumir vildu bæta við símtölum. Þýskur blaðamaður komst að þeirri niðurstöðu 1936 að þjóðaríþrótt Reykvíkinga væri að tala í síma.“

Ásóknin í leiksýningar var nokkuð sveiflukennd í það minnsta eins og meðfylgjandi línurit sýnir.

Lárus Sigurbjörnsson, formaður og framkvæmdastjóri Leikfélags Reykjavíkur 1930-1935, fékk eftirfarandi símskeyti sent frá Akureyri 15. apríl 1935. Skjalasafn LR sýnir að nóg var að gera hjá Lárusi um þessar mundir. Hann stóð í bréfaskriftum við aðila í Þýskalandi, Danmörku og Færeyjum auk þess að leita eftir samstarfi við íslenska leikstjóra og leikara. Um sama leyti sendu Útvegsbanki Íslands og Landsbanki Íslands kröfur á hann um greiðslu ýmissa víxla og höfnuðu að greiða fyrir frekari fyrirgreiðslu.

Í greinargóðri samantekt Leikminjasafns Íslands segir að á Akureyri hafi „[v]erkefnavalið á þessum árum fram undir 1940 var reyndar all reykvískuskotið og undantekning ef flutt voru á sviðinu í Samkomuhúsinu verk sem ekki höfðu verið áður flutt syðra.“ Þar hafa áhrif kreppunnar sjálfsagt einnig gætt. Sendandi meðfylgjandi símskeytis var sjálfsagt Hallgrímur Valdimarsson (1875-1961), bróðir Margrét Valdimarsdóttir (1880-1915) leikkonu. Hallgrímur sat í fyrstu stjórn Leikfélags Akureyrar sem var stofnað 1917 og starfaði mikið að leiklistarmálum. Ágúst Kvaran hafði frumsýnt leikritið Á útleið eftir breska leikskáldið Sutton Vane 16. febrúar.En næsta sýning Leikfélags Akureyrar var hið klassíska verk Skugga-Sveinn eftir Matthias Jochumsson sem sýnt var 10. nóvember. Ekki fylgir sögunni hvort það sé umrætt handrit.

 

Leikfélag Reykjavíkur - graf

 

 

Símskeyti úr safnið Leikfélags Reykjavíkur

Smellið á skeyti til þess að stækka mynd

 

 

Texti og línurit: Hrafn Malmquist.

 

 

Heimildir:

·Vefur Borgarleikhúss: Ágrip af sögu Leikfélags Reykjavíkur og Borgarleikhúss

· Guðjón Friðriksson. Saga Reykjavíkur: bærinn vaknar : 1870-1940. Reykjavík: Iðunn, 1991-1994. bls 384-385

·Vefur Leikminjasafns Íslands: Leiklist á Akureyri - Sýning Leikminjasafns Íslands í Amtsbókasafninu á Akureyri

·Gagnabanki íslenskra leikhúsa og leikhúslistamanna

 

 

Share

Til baka...