Gamall haus


Bólu-Attest Garðars Gíslasonar frá 1878

Bólusetningar draga nafn sitt af uppgötvun breska læknisins Edward Jenners árið 1796, en hann benti á að nota mætti bóluefni gegn kúabólu til þess að koma í veg fyrir bólusótt. Taldi hann að þannig mætti útrýma bólusótt úr heiminum.

Íslendingar urðu meðal fyrstu þjóða að hefja bólusetningu gegn kúabólu og þar með bólusótt. Var það gert árið 1805 með lagaboði danskra stjórnvalda í kansellíbréfi þar að lútandi, í samræmi við ákvörðun heilbrigðisyfirvalda árið 1802. Var landsmönnum þaðan í frá gert skylt að láta bólusetja sig gegn bólu og hélst sú lagaskylda til ársins 1978. Þannig tókst að útrýma úr landinu einnni skæðustu farsótt sem herjaði á Íslendinga á öldum áður. Algengast var að bólusetninga börn tveggja ára við kúabólu og endurtaka hana síðan.

Bólusetning er ónæmisaðgerð sem ætlað er að koma í veg fyrir alvarlegan smitsjúkdóm. Bóluefnin eru ýmist unnin úr veikluðum veirum eða bakteríum eða þau innihalda efni sem finnast í þessum sýklum. Bóluefnin sjálf valda oftast litlum einkennum en vekja upp mótefnasvörun í líkamanum sem kemur í veg fyrir eða dregur úr líkum á að fólk veikist af sjúkdómnum sem bólusett er gegn. Bólusetningar hafa verið almennar hér á landi í marga áratugi og þátttaka í þeim er mikil, einkum í bólusetningu barna. 

Á Borgarskjalasafni Reykjavíkur er nú unnið að skráningu á einkaskjalasafni þeirra feðga Garðars Gíslasonar og Bergs Gíslasonar en Garðar var fyrsti heildsalinn á Íslandi. Um er að ræða einstaklega fjölbreytt og yfirgripsmikið safn, þar sem margir dýrgripir leynast.

Meðal skjala sem fundist hafa í safninu er bólusetningarskírteini Garðars Gíslasonar frá 1878 og endurbólusetningarskírteini frá 1891. Það lýsir vel vinnubrögðum heilbrigðisyfirvalda við bólusetninguna og hvað hún var talin mikilvæg. Þess má geta að slík staðfesting var forsenda þess að skólapiltar fengju inngöngu í Lærða skóla í Reykjavík.

 

bólusetningar 4

 

 

bólusetningar 3

 

Ítarefni:

 

Þann 8. maí 1889 birtist eftirfarandi frétt eða fréttatilkynning frá landlækni í Ísafold:

 

Bólusetning á Íslandi.


Bólusetning hefir ekki verið sem beztu lagi hjer á landi hingað til, og þó er það einkar-áríðandi einmitt að því er Island snertir, að það mál sje jafnan í góðri reglu, með því að það er miklu örðugra viðfangs hjer en víða annarstaðar, vegna strjálbýlis, að bólusetja fólk hópum saman í snatri, ef bólan kæmi upp einhverstaðar á landinu. Jeg ber nú ekki móti því, að skortur á bóluefni hefir hingað til átt nokkurn þátt í þessu; en nú er bót ráðin á því, með því að heilbrigðisráðið danska hefir að beiðni minni, heitið að senda að minnsta kosti um tíma kauplaust talsvert meira bóluefni til landsins en áður. Jeg er þess vegna nú fær um að hjálpa blóusetjurum og aukabólusetjurum um bóluefni, ef þeir leita mín um það og segja greinilega til nafns síns og heimilis. Verður þá hver beiðni rituð í bók, og bóluefnið sent hlutaðeigendum, þeim að kostnaðarlausu, í þeirrí röð, sem þeir gefa sig fram. Oskjurnar eða trjehulstrin, sem bóluefnið er sent í, óskast endursend mjer við tækifæri. Hverri sendingu verður látin fylgja dálítið skýrslueyðublað, er bólusetningarstofnunin í Khöfn óskar að fá ritað á, hvernig bólusetningin hefir gengið úr því efni, sem sent er í hvert skipti, til þess að komast fyrir, hvernig hentugast muni að senda það, eptir því sem til hagar hjer á landi. Með því að. það er mjög áríðandi fyrir yfirvöldin, að vita greinilega, hvernig gengur með bólusetninguna, eru bólusetjarar beðnir að við hafa hina mestu nákvæmni, er þeir semja skrár þær um bólusetningar, er senda skal hjeraðslæknunum, eins og líka lagt mun verða fyrir hjeraðslækana af amtmönnum, samkvæmt konungsbrjefi 24. marz 1830, að senda ársskýrslur sínar um þá, sem bólusettir hafa verið í þeirra umdæmi, til landlæknis, reglulegar en átt hefir sjer stað að undanförnu.

Landlæknirinn á íslandi, Reykjavík 4. maí 1889.
ScHIEKBECK.

Heimildir:

www.landlaeknir.is

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=273703&pageId=3941850&lang=is&q=bólusetning

 

Höf: Svanhildur

Share

Til baka...