Gamall haus


70 ár frá hernámi í Reykjavík

 

Í dag, 10. maí eru liðin 70 ár frá því að breskur her steig hér á land. Síðari heimstyrjöldin hafði þá verið í gangi í 8 mánuði og komu Bretarnir hingað til að passa það að Ísland félli ekki undir þýsk yfirráð því það hefði komið þeim óskaplega illa.

 

En hvað með Ísland og hvað með okkur Íslendingana?

 

Mikið hefur verið skrifað um hernámið og eru konur og tyggjó alltaf jafn vinsælt umfjöllunarefni. Hermennirnir komu með sjarmann og kenndu konunum að þær væru í raun dömur og hvernig ætti að koma fram við dömur, annað en það sem hinn íslenski vinnuþjarkur bóndason hafði gert fram að því. En þessar skemmtisögur höfum við öll heyrt.

 

Við hérna á Borgarskjalasafninu fórum á stúfana í tilefni þessara tímamóta og einbeittum okkur að þessum örfáu klukkutímum, dögum og vikum eftir hernám. Finna skjöl um það.

„Ég sé hann fyrir mér“. Grein eftir Árna Jónsson frá Múla þar sem hann fjallar um viðbrögð utanríkisráðherra, Stefáns Jóhanns Stefánssonar, á hernámsdaginn.

 

Það fyrsta sem við fundum var frábær grein Árna Jónssonar frá Múla: ,,Ég sé hann fyrir mér“, þar sem hann fjallar um viðbrögð utanríkisráðherra, Stefáns Jóhanns Stefánssonar, á hernámsdaginn. Lýsandi grein um hvernig var að ganga um borgina þennan atburðarríka morgunn.

 

 

Við fundum einnig dagbókafærslur frá úr einkaskjalasafni Carls Olsen frá fyrstu dögum hernámsins:

 

 

 

Dagbók Carls Olsen frá 10. maí 1940. Smelltu til að sjá í PDF.

10. maí
Ísland hernumið af bresku herliði! Kl. 4 í morgun var ég vakinn af Sören sem tilkynnti mér að flugvél sæist yfir bænum og á sama tíma sáust fjögur bresk herskip úti á Sundinu. Lokað hjá Pósti og síma þar til um eftirmiðdaginn. Allt undirlagt af herliðinu og allir þjóðverjar, þar á meðal Gerlach ræðismaður, færðir um borð í herskip. Tveimur loftvarnabyssum komið fyrir á Skólavörðuholtinu. Allt með kyrrum kjörum í bænum.

 

 

 

Næsta skjal sem við fundum var bréf frá Barnaverndarráði Íslands til borgarstjórans í Reykjavík frá 14. maí 1940. Þar er varað við hættunni sem börnum gæti stafað af hugsanlegum loftárásum og mælst til þess að að bæjarstjórn Reykjavíkur styðji þá málaleitun að koma sem flestum börnum á aldrinum 6-13 ára í sveit yfir sumartímann.Bréf frá Barnarverndarráði Íslands til Borgarstjóra Reykjavíkur. Börn skulu fara í sveitina.

 
 Það er auðsætt, að ef til loftárása kæmi á Reykjavík, myndu börnin, einkum hin stálpuðu börn frá ca. 6-13 ára vera í hættu, þar sem þau eru úti um allt, en kunna hinsvegar ekki að forðast hættuna.

 

 

Bréf frá forstjóra Sundhallarinnar til Bæjarráðs Reykjavíkur um aðsókn breska setuliðsins að Sundhöllinni.


Breska setuliðið tók undir sig Þjóðleikhúsið, Menntaskólann í Reykjavík, Stúdentagarðana og aðrar byggingar en hér gefur að líta bréf til bæjarráðs frá rekstraraðilum Sundhallar Reykjavíkur um að lengja þurfi opnunartíma Sundhallarinnar svo allir komist í sund. Þá máttu yfirmenn úr hernum koma á venjulegum afgreiðslutíma en bresku liðsmennirnir þurftu að bíða og voru þá einir um laugina eftir kl.15.

 

 

En hermennirnir voru ekki alltaf að hafa það gott í pottunum og mætti halda að þeir fengju ekki nóg að borða miðað við kærubréfið sem við fundum frá formanni barnaverndarnefndar Reykjavíkur, Jóni Pálssyni.

Kæra frá formanni barnaverndar og svar frá hernum.

 

Í bréfinu sem var dagsett 17. júlí 1940 og stílað á Sakadómarans í Reykjavík lýsir formaður nefndarinnar bíræfnum þjófnaði hermanns sem stöðvaði herbíl við heimreiðina að barnaheimilinu að Silungapolli og ók á brott með stóran brauðkassa sem merktur var heimilinu. Fer hann fram á að sakadómari rannsaki tafarlaust tiltekið „rán á eignum fátækra og veiklaðra barna“ og að herstjórnin greiði andvirðið að fullu.

 

 

Dagbók lögreglunnar í maí 1940Dagbók lögreglunnar er lokuð en það fundust færslur sem okkur er leyfilegt að birta hér. Þann 10. maí, daginn sem liðið mætir hringir Jónas alþingismaður í lögregluna að því er virðist heldur súr yfir áhuga barnanna á herliðinu. Biður hann lögregluna um að banna börnunum að tala við hermennina og sjá til þess að því verði framfylgt. Hræðslan við hið óþekkta er alltaf mikil og börn verða alltaf með þeim forvitnari í samfélaginu en skiljanlega gat lögreglan ekki orðið við þessari bón. Þetta hefði væntanlega orðið hennar eina starf.  

 

Hér fyrir neðan eru svo linkar í fleiri áhugaverð skjöl sem við fundum:

Skýrsla um hvernig Vinnumálastofnun kemur að ráðningum verkamanna til hersins.   Samningur milli Ísl. og Breta um húsnæði og landeignir hersins og hvernig skal gert upp við stríðslok.   Bréf ritað af Bjarna Benediktssyni við upphaf hersetunnar. Ekki er vitað um viðtakanda, en við erum að skoða málið.   Skjöl frá Slökkviliði Reykjavíkur. Reglur um afnot og umgengni í opinberum loftvarnarbyrgjum 1940.  Til  Niðurjöfnunarnefndar.Bæjarráð leggur til að útsvör verði hækkuð eftir efnum og ástæðum vegna útgjaldaauka vegna stríðsins.    Bréf frá Ólafi Thors þáverandi atvinnumálaráðherra til Howard Smith, sendiherra Breta, um hættuna af veru herliðs í Reykjavík. Bréfið var aldrei sent!

 

Það er alveg á hreinu að af nógu er að taka í Borgarskjalasafninu varðandi hernámið og eru allir velkomnir að kíkja í heimsókn til okkar hvenær sem er, á virkum dögum milli 10 og 16.

 

Elísabet Ólafsdóttir

 

Ýtarefni:

 

Borðalagðir dáta og borgardætur

Blórabögglar og olnbogabörn. ,,Ástandskonur" og aðrar konur í Reykjavík í seinna stríði. Höf. Eggert Þór Bernharðsson

Loftvarnir í Reykjavík á heimsstyrjaldarárunum síðari. Ráðstafanir og starf loftvarnanefndar Reykjavíkur. Höf. Sævar Logi Ólafsson. B.A. ritgerð.

,,Ó, vesalings tískunnar þrælar". Um ,,Reykjavíkurstúlkuna" og hlutverk hennar. Höf. Eggert Þór Bernharðsson.

Reykjavík í hers höndum. Sýningar Borgarskjalasafns 2002 og 2003

Bretarnir koma. Vefur RUV um hernám Íslands.

Share

Til baka...