Gamall haus


Laugardalur bernsku minnar

Laugardalsvöllur 17. júní 1959Hér á eftir koma nokkrar frásagnir fólks um minningar sínar af Laugardal sem rifjuðust upp þegar myndin af Laugardalsvelli var skoðuð. Endilega sendið okkur minningar ykkar frá dalnum og hverfinu, annaðhvort sem athugasemdir eða á netfangið borgarskjalasafn@reykjavik.is.


Gunnar Björnsson (f. 1964):

Ég ólst upp í Álfheimunum. Ég fór oft með félögum mínum til Gunnars bónda að bænum Laugabóli og við keyptum af honum egg. Ætli maður hafi ekki verið 7-9 ára þegar maður byrjaði að fara þangað. Þegar við komum að kaupa eggin tók hann alltaf vel á móti okkur og bauð okkur oft inn til sín að spjalla.

Gunnar bóndi fór með mjólkina í brúsum á eldgömlum traktor upp í Mjólkurstöðina við Laugarveg, þar sem Þjóðskjalasafn er núna. Hann keyrði þetta löturhægt og oft myndaðist löng röð bíla á eftir honum.

Laugardalurinn var þá afskekktari og meira svona sveit í borginni. Það var mikið um að vera þarna fyrir okkur félagana. Við vorum að þvælast um og skoða, leika okkur í boltaleikjum og hinu og þessu. Þá var þarna lystigarður, við hliðina á þar sem er grasagarður nú. Oft fór fjölskyldan á góðviðrisdögum í lystigarðinn í nokkurskonar picknick. Við gengum þangað og tókum með okkur samlokur, ávexti og kakó. Þarna var trjáskógur með lautir og lundir þar sem hægt var að setjast niður. Þetta voru svona afmarkaðir reitir þannig að fólk gat verið út af fyrir sig. Svo voru stærri grasbalar þar sem hægt var að fara í fótbolta og boltaleiki. Það var oft fjölmennt þarna og mikið af krökkum. Svo prílaði maður í trjám og hafði gaman af.

Svo var íþróttavöllurinn og Jakaból sem er hús vestan megin við Laugaból. Þar voru margir þekktir að lyfta eins og Skúli Óskarsson og Jón Páll Sigmarsson. Þar fór maður oft, kíkti inn og fylgdist með þeim.

Svo var maður í skólagörðunum sem voru þarna alveg við. Þar ræktaði maður kartöflur og alls konar kál, gulrætur, radísur og fleira.

Í minningunni er Laugardalurinn svona rólegur staður í borginni. Það var frábært að hafa svona leiksvæði alveg nálægt heimilinu.


Gíslína Vigdís Guðnadóttir (f. 1940):

Ég flutti á Kirkjuteig 14. maí 1947 og bjó þar til 1966 en hef alltaf verið með annan fótinn á Teigunum, enda fjölskylda mín búið þar óslitið síðan á mismunandi stöðum í hverfinu.

Myndin er af Laugarneshverfi og Laugarási í byggingu með Viðey og Esju í baksýn. Þessi mynd er frá um 1955-1960, myndi ég segja.

Bóndinn í dalnum heyjaði öll túnin sem eru hægra megin neðst. Alveg frá 1948/49 voru grafnir skurðir um allan Laugardalinn til að þurrka upp landið. Það voru stórar gröfur sem grófu þetta upp og það var vatn í botninum. Áður var þetta allt mýri.

Á býlinu Laugarási, sem Laugarásvegur er nefndur eftir, voru bændur hjónin Sólveig og Ingimar, alveg einstaklega gott og duglegt fólk. Þau átti 12 börn og ólu einnig upp mörg fósturbörn, þangað til þau gátu farið að bjarga sér. Býli þeirra var aðeins austar en sést á myndinni en þau höfðu fengið landið í erfðafestu hjá Reykjavíkurbæ. Land þeirra var aðallega fyrir neðan Laugarásveginn, alveg niður að Suðurlandsbraut, þar á meðal var hluti af því þar sem Húsdýragarðurinn er núna. Þau voru einnig með land ofan Laugarásveg. Landið var slæmt til ræktunar í fyrstu og eintóm mýri. Þau hjónin og börnin unnu að því að þurrka upp landið með því að grafa skurði og unnu með því mikið frumkvöðlastarf og í raun þurrkuðu upp þennan hluta Laugardalsins þannig að hann varð betri til ræktunar og síðar til útivistar.

Mikið var um tún í Laugarneshverfinu og voru þau öll heyjuð, alveg frá þar sem Lækirnir eru og alveg lengst út á Laugarnes. Lækur rann við Laugarnesveginn sem var kallaður Fúlilækur. Við lækinn var heilmikið af kartöflugörðum. Fúlilækur rann að Fúlutjörn sem var niður við sjó, þar sem strætisvagnarnir voru geymdir.

Milli Reykjavegs og Laugardalsvallar voru kartöflugarðar sem fólki var úthlutað frá ca 1947 til ca 1950. Þetta var fyrir neðan Kirkjuteig og lóð Laugarnesskóla, eins og fyrir ofan húsið sem sést þar á myndinni og á henni sést aðeins móta í garðana. Við Reykjaveginn var líka íbúðarhús, skemma og nokkrar kofar og bjó fólk í sumum þeirra. Þarna í gegn rann lækur með álum en hann var seinna þurrkaður upp. Ég held að Lækjahverfið hafi verið kallað eftir læknum. Krakkarnir voru mikið að leika sér í Laugardalnum; að djöflast þar. Enda var hægt að gera mikið þar á óbyggðu svæðinu. Krakkarnir voru oft að leika sér ofan í skurðunum. Við vorum með spaða (krakkaskóflur) og bjuggum til hálfgerð einstigi eða braut í hliðinni á skurðinum sem við fórum eftir. Stundum datt einhver ofan í og var þá dreginn upp úr á hárinu allur í moldardrullu!

Þegar ég flutti i hverfið var verið að byggja um allt Teigahverfið, kirkjan var komin, nema eftir að setja glerið og Laugarnesskólinn fullbúinn. Kirkjan var svo vígð seinna. Maður gat klifrað á stinnlönsum um allt hverfi. Alls staðar var pússningasandshrúgur sem maður gat byggt í og leikið sér í.

Hverfið var alveg yndislegt á þessum tíma. Mikið af börnum í hverju húsi á öllum aldri. Það voru oft 3, 4, 5 og upp í 6 krakkar í hverri íbúð á Teigunum, auk foreldra og oft afa og ömmu. Kannski þess vegna voru krakkarnir miklu meira úti. Það var ekkert pláss inni, sofið alls staðar þar sem hægt var að sofa. Það kvartaði enginn yfir þrengslum – þetta var bara svona, enda þóttu mikil forréttindi að eiga heima í nýbyggðu flottu húsi.

Það var hlýindaskeið og yndisleg sumur ár eftir ár. Aldrei gengið í úlpu heldur í kjólum og hnébuxum. Krakkarnir voru úti allan liðlangan daginn og var alltaf hægt að finna upp á einhverju til að leika sér. Bílaumferð var næstum því engin, enda mjög erfitt að fá innflutningsleyfi fyrir bíl. Svo voru allar sendiferðirnar í búðirnar en það voru margar búðir á Teigunum þá. Oft bjuggum við krakkarnir til ævintýraferðir í Laugardalinn. Fylgjumst með heyskapnum og óskuðum þess að við fengjum að vera með. Einnig sátum við lækinn (Fúlalæk) og kjöftuðum, rændum okkur rófu í kartöflugörðunum, þurrkuðum moldina af henni og borðuðum strax og voru það bestu rófur sem maður hefur smakkað á ævinni. Ef einhver eignaðist hasarblað, Satt eða Sannar sögur, þá söfnuðust krakkarnir saman eftir að fór að dimma undir ljósastaurum, skoðuðum eða lásum saman eða einhver las upphátt fyrir hina. Maður mátti ekki lesa Satt heima, því það var svo mikið af morð- og glæpasögum í því. Í Sönnum sögum voru lífreynslusögur fyrir fullorðna, sem lenti í öllu mögulegu. Strákar fóru á þessum tíma mikið í þrjú bíó og mættu vel tímanlega. Fyrir utan bíóið býttuðu þeir hasarblöðum sín á milli og blöðin gengu frá einum strák til annars.

Börn á Kirkjuteig um 1951. (Úr einkasafni)


Á myndinni sést að Hrafnista (DAS) er komin en Laugarásbíó sést ekki. Laugarásbíó opnaði 1960 og var glæsilegt bíó. Ég man eftir þegar ég fór með Boga manninum mínum að sjá þar Fýkur yfir hæðir (Gone with the Wind) árið 1961 sem var mjög eftirminnileg mynd.

Efst sést að byrjað er að byggja Laugarásinn, sem alltaf var kallaður Snobb-Hill vegna þess að þar voru byggð stór fín einbýlishús eða stórar hæðir og mjög erfitt að fá lóð þar. Það var mjög pólitískt og dýrt. Það sést að alls staðar fyrir neðan Laugarásveginn var verið að þurrka upp landið með skurðum til að hægt væri að byggja þar eða nýta landið, en þarna hafði verið mýri. Ég átti eina vinkonu í húsinu Tómasarhaga fyrir ofan Laugarásveg og fór stundum til hennar. Maður hljóp úr Teigunum til hennar og munaði lítið um það.

Neðst til vinstri byrjar Teigahverfið og þarna sjást hús við Sigtún og Reykjaveg. Þegar ég flutti í hverfið 1947 var Laugarnesskóli tilbúinn og þótt mjög glæsilegur og myndarlega að öllu staðið. Gömlu sundlaugarnar voru ein útisundlaug og búningsklefar og sturtur í timburhúsi. Þær voru þar sem nú eru raðhús við Laugalæk, beint á móti Reykjavegi. Þar voru smá klefar til að klæða sig úr og síðan sameiginlegur búningsklefi fyrir marga, fyrir hvort kyn fyrir sig. Það var alltaf mjög hlýtt inni í húsinu, alveg yndislega hlýtt. Gólfin voru alltaf þurr og heit. Það var kókosrenningar á gólfunum sem lágu út í sundlaugina. Á ganginum út í laugina voru sérstakar sturtur fyrir karla og sérstakar fyrir konur. Það voru líka búningsklefar og sturtur úti en fáir nýttu sér það. Okkur voru kennd sundtökin á gólfinu í búningsklefanum áður en við fórum út. Við sátum flötum beinum á gólfinu og lærðum sundtökin. Sundkennarinn heit Eiríkur og hann kenndi okkur líka í Laugarnesskólanum. Þar kenndi hann okkur íslensku og að tala rétt og fallegt mál.

Ofarlega vinstra megin sést Rauðilækur, sem endar við Dalbraut í austur. Neðan við Kleppsveg voru alls konar verksmiðjur, m.a. síldarverksmiðja. Á myndinni sést stórt hús sem ég man ekki eftir. Kannski einhver þekkir það? Ég átti sjaldan erindi upp á Kleppsveg. Laugarnesið var þéttbyggt af hermannabröggum sem fólk bjó í vegna húsnæðisskorts í bænum. Krakkarnir þaðan gengu í Laugarnesskólann.

Það var alveg yndislegt að alast upp á Teigunum og ég á endalausar góðar minningar þaðan! Ein svona mynd rifjar upp óteljandi minningar frá hverjum stað, hverri götu, hverju húsi, af fólkinu í hverju húsi og frá lífinu í hverfinu þegar ég var að alast upp þar.

Börn á Kirkjuteig um 1950. (Úr einkasafni)Bogi Helgason (f. 1939):

Pabbi var með kartöflugarð í Laugardalnum frá ca 1947 og fór ég oft með honum. Garðurinn var á móts við Kirkjuteig og Hraunteig, hinu megin við Reykjaveginn. Ég var að leika mér meðan pabbi og mamma voru að vinna í garðinum.

Laugardalurinn var algjört ævintýraland. Þarna var leirtjörn og álar sem skriðu í leirnum, bara á þurru landi. Ég hafði aldrei séð svona. Það var heitt og yndislegt þarna.

Ég fór oft með pabba í gömlu laugarnar og seinna með bróður mínum eða einn. Laugarnar voru sérkennilegar. Búningsklefar voru hráir úr timbri, sturturnar voru bara mjór gangur, enginn gluggi og mjög heitt þarna inni. Ég held að laugarnar hafi verið í sér borholu.

Ég á góðar minningar úr Laugardalnum í æsku.


Friðrik V. Stefánsson (1962):

Ég fór oft á landsleiki með vinum mínum með Akraborginni frá Skaganum. Þá voru engin sæti og maður stóð bara allan leikinn. Ennþá um 1975 var verið að heyja í Laugardalnum stundum þegar maður kom þangað.


Viðtöl tekin af Svanhildi Bogadóttur í janúar 2010.

Share

Til baka...