Gamall haus


Menningarlaus ríll frá Verslunarskóla Íslands

Það er ófögur lýsingin sem "Vegfarandi" gefur á Verslunarskólanemendum í kvörtunarbréfi til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, en þar kemur meðal annars fram:

Vill Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hlutast til um að vegfarendur, sem um Grundarstíg fara og grend, hafi lögverndaðan frið fyrir hinum étandi, reykjandi, flissandi og kjaftandi menningarlausa ríl frá Verslunarskóla Íslands?

Bréfið er skrifað 19. desember 1934 og þegar daginn eftir tekið til meðferðar hjá Barnaverndarnefnd og starfsmönnum hennar. Það er lagt fyrir nefndina og í handskrifuðum athugasemdum kemur fram að bréfið hefur verið lesið símleiðis fyrir skólastjóra og

var hann á sama máli og ég með það, að í þessu efni væri ekkert hægt að gera, enda væri tilefnið sennilega mjög að ástæðulausu. Í skólanum er einmitt lögð áhersla á gott siðferði: þar er einn af kennurunum lögr.maður o.s.frv.

Bréf þessa er skemmtilegt dæmi um málsmeðferð og afgreiðslu á málum sem berast en ekki var um svarbréf að ræða þar sem bréfið var nafnlaust. Með bláum lit er skrifuð tilvitnun í gjörðabók Barnaverndarnefndar og með rauðum lit er málslykill og heiti málaflokks hjá nefndinni.

Nafnlaust bréf til Barnaverndarnefndar um Verslunarskólanemendur.

Skjal úr bréfa- og málasafni Barnaverndarnefndar Reykjavíkur sem varðveitt er á Borgarskjalasafni Reykjavíkur.

Þess má geta að orðabókarskilgreining á ríl er:

ríll, ríls, rílar KK: ómerkilegur mannsöfnuður, skríll; ríllinn fylgdi honum blindandi.

(Orðabók Menningarsjóðs á www.snara.is)

Share

Til baka...